• gus2605

„draumarnir skref/ og skrefin draumur“
Björk Þorgrímsdóttir sendi nýlega frá sér sína þriðju ljóðabók sem ber titilinn Hún sem stráir augum. Ljóðin sem þar er að finna eru bæði myndræn og fáguð. Björk nálgast tungumálið á skemmtilegan og frjóan hátt en í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni, um ljóðabókina, ræðir hún meðal annars hvernig hún vill nota orðin í skáldskapnum:

Það er svo dásamlegt [að fara handan við orðin], það er það sem mig langar að gera [...]. Við notum tungumálið, við notum orð, en þau eru svo miklu meira, maður þarf að fara varlega með þau líka, en það má leika sér.  

Björk leikur sér svo sannarlega með tungumálið á áhugaverðan máta því hún dregur upp óvæntar myndir í ljóðunum og beitir auk þess frumlegum og snjöllum líkingum sem koma ímyndunarafli lesandans gjarnan á flug. Ljóðin eru margræð, oft draumkennd og dulúðleg, og því er líklegt að lesendur sjái og skynji eitthvað nýtt í hverri lestrarheimsókn.


Hér að neðan má lesa tvö ljóð úr ljóðabókinni:


Satt

vangi og saltvatn sjór og bátur en hvernig get ég orðið steinn?


ég er orð þreytt og sá sem getur leyst gátuna fær að sitja gegnt mér þar sem ég svitna perlum


og þú mátt tína þær upp borða, setja í augun, skreyta með


þú túlkun tunga sjávardýr


við sitjum í sitthvorum stólnum ég í náttkjól sem amma gaf mér þú í sjálfum þér


og perlurnar sem þekja gólfið ljóma svo fallega kyrrt


ég gleymi mér í kyrrð þeirra


ég gleymi mér stöðugt


ég gleymi mérGagnsæ (hvernig ég vex til himna)


ég breiði vængina út og kem mér upp leiðakerfi í rugluðum sjó


hrár þráður gegnum lófann, næstum því líflína


moldarhaf útrunnin sólblóm


inná milli ljósborga blindur söngur


draumarnir skref og skrefin draumur


kannski margfaldast vængirnir?


Í gluggunum speglast ég í loftinu er ég ekki til


Myndin af Björk er sótt af heimasíðu Forlagsins.