• Soffía Birgisdóttir

Blóðskömm, pyntingar og Stóridómur

Árið 2015 sendi Þóra Karítas Árnadóttir frá sér sína fyrstu bók, sannsöguna Mörk – saga mömmu sem hlaut góðar viðtökur lesenda. Önnur bók Þóru Karítasar, Blóðberg er hins vegar skáldsaga sem byggir á sögulegu efni.


Í kynningu bókarinnar segir:


Árið 1608 sver ung stúlka í Skagafirði, Þórdís Halldórsdóttir, eið um að hún sé hrein mey eftir að upp kemur kvittur um ástarsamband hennar við mág sinn en slíkt var dauðasök á tímum stóradóms.


Fimm mánuðum síðar fæðir hún barn. Þórdís má lifa með ásökunum um blóðskömm og í trássi við landslög er henni gert að sæta pyntingum segi hún ekki til barnsföður síns.


Á hverju ári ríður hún suður heiðar til að mæta fyrir Alþingi á Þingvöllum en heill áratugur líður þar til dómur er kveðinn upp.