• Guðrún Steinþórsdóttir

Barnaleikrit eftir konur

Það er fátt skemmtilegra en að skunda í leikhús og sjá heilan heim verða til á sviði og jafnvel fá tækifæri til að líta þekktar bókmenntapersónur augum. Í fyrra óskaði Þjóðleikhúsið eftir leikritum og hugmyndum að leikritum fyrir börn. Undirtektirnar voru vonum framar en 150 umsóknir bárust. Meðal leikrita sem voru valin til sýninga eru Umskiptingur eftir Sigrúnu Eldjárn og Lára og Ljónsi - jólasaga eftir Birgittu Haukdal og Góa.


Leikverk Sigrúnar verður frumsýnt í janúar 2022. Þar leikur hún sér á frjóan og snjallan hátt með þekkt minni um umskiptinga úr þjóðsögunum. Í kynningu verksins segir enn fremur:


Systkinin Sævar og Bella eru í berjamó, og einu sinni sem oftar þarf Sævar að gæta litlu systur sinnar, sem satt að segja getur verið alveg ferleg frekjudolla! En Bella er alveg einstaklega krúttleg og þegar tröllskessa með óslökkvandi fegurðarþrá sér hana ákveður hún að skipta á henni og hinum stórgerða, uppátækjasama og hjartahlýja syni sínum, tröllastráknum Steina. Nú eru góð ráð dýr, en í ljós kemur að hjálpar má vænta úr ólíklegustu áttum!

Birgitta hefur slegið í gegn með barnabókunum um Láru og Ljónsa en nú birtast þessar ástsælu persónur loksins á leiksviði. Leikritið Lára og Ljónsi – jólasaga er ætlað yngstu áhorfendunum en fyrir sýninguna hefur Birgitta samið ný lög sem munu vafalaust ná vel til barna. Verkið verður frumsýnt í aðdraganda jólanna en í kynningu sýningarinnar segir:Verkið gerist á aðventunni og jólasveinarnir eru farnir að tínast til byggða og gefa börnum í skóinn. En eina nóttina hverfur Ljónsi, uppáhalds mjúkdýrið hennar Láru sem, eins og flestir vita, er enginn venjulegur bangsi. Hvað getur hafa orðið af Ljónsa? Getur verið að hvarf hans tengist jólasveinunum á einhvern hátt?


Það er ljóst að barnafjölskyldur geta farið að hlakka til komandi leikárs en til viðbótar við þessar tvær sýningar býður Þjóðleikhúsið upp á fimm önnur leikrit ætluð börnum og unglingum.