• Guðrún Steinþórsdóttir

Bókmenntahátíð


Það er alltaf fagnaðarefni þegar efnt er til Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Hún verður nú haldin hátíðleg 8.-11. september næstkomandi. Ótal viðburðir verða í boði þar sem rætt verður um bókmenntir, skáldskap og þjóðfélagsleg málefni auk þess sem höfundar munu lesa upp úr verkum sínum. Samtöl fara fram á ensku en upplestrar á móðurmáli höfunda. Fjöldi erlendra rithöfunda er meðal þátttakenda auk íslenskra höfunda.


Í ár taka átta skáldkonur út íslenskri bókmenntasenu þátt í hátíðinni þar á meðal Sigrún Pálsdóttir, Gerður Kristný og Margrét Lóa. Þá er áberandi hve margar þeirra eru af yngri kynslóðinni en til leiks mæta einnig Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Halla Þórlaug Óskarsdóttir, María Elísabet Bragadóttir og Mao Alheimsdóttir. Eliza Reid stigur líka á stokk en bók hennar Secrets Of The Sprakkar: Iceland’s extraordinary women and how they are changing the world er væntanleg á íslensku seinna í haust í þýðingu Magneu Matthíasdóttur.


Á hátíðinni verða veitt tvenn verðlaun; annars vegar þýðingarverðlaunin Orðstýr fyrir þýðingar íslenskra verka yfir á erlend tungumál og hins vegar alþjóðleg bókmenntaverðlaun sem kennd eru við Halldór Laxness. Enn ríkir leyndardómur um hver hreppir verðlaun Laxness í þetta sinn en fyrstur til að hljóta þau var breski rithöfundurinn Ian McEwan.


Dagskráin fer fram í Norræna húsinu á daginn en í Iðnó á kvöldin. Allir eru hjartanlega velkomnir og aldrei er að vita nema haldið verði í gamlar hefðir og hátíðinni slúttað með bókaballi í Iðnó.


Nánari upplýsingar um hátíðina, gesti og dagskrá má finna á heimasíðu Bókmenntahátíðar: https://bokmenntahatid.is/