• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Bækur eftir konur tilnefndar!

Blokkin á heimsenda og Grísafjörður: ævintýri um vináttu og fjör hafa verið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Blokkin á heimsenda er eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 og Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2020 fyrir óbirt handrit. Arndís hefur m.a. sent frá sér bækurnar um Nærbuxnaverksmiðjuna en Blokkin á heimsenda er fyrsta bók Huldu á íslensku. Hulda hefur hins vegar gefið út verðlaunaðar unglingabækur í útlöndum. Í kynningu á sögunni kemur m.a. eftirfarandi fram:


Dröfn hefur aldrei hitt ömmu sína svo að óvænt ferðalag á afskekktu eyjuna hennar hljómar spennandi. En ferðin verður fljótlega dálítið skrýtin. Hvernig er hægt að þola svona takmarkað samband við umheiminn? Búa allir furðufuglarnir á eyjunni virkilega í einni blokk? Og er mögulegt að einhver í blokkinni vilji Dröfn og fjölskyldu hennar illt?


Grísafjörður: ævintýri um vináttu og fjör er eftir Lóu H. Hjálmtýsdóttur. Bókin hlaut Verðlaun bóksala 2020 og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020. Grísafjörður er fyrsta barnabók Lóu Hlínar sem einnig myndskreytir söguna. Í kynningu á sögunni segir m.a.:


Tvíburarnir Inga og Baldur eru komnir í sumarfrí. Á dagskránni er að drekka kókómalt, glápa á teiknimyndir og slappa af með tilþrifum. Fyrirætlanir þeirra virðast ætla að fjúka út í veður og vind þegar Albert, nágranni þeirra af efstu hæðinni, birtist óvænt í heimsókn hjá þeim. Honum er augljóslega mikið niðri fyrir. Systkinin hafa enga þolinmæði gagnvart þessari hindrun í vegi þeirra en eftir því sem Albert segir þeim meira frá vandamáli, sem hann stendur frammi fyrir, er forvitni þeirra vakin.


Samtals eru 14 norrænar myndabækur, unglingabækur og framtíðarsögur tilnefndar í ár. Hér má sjá lista yfir tilnefnd verk og nálgast frekari upplýsingar.


Tilkynnt verður hver hlýtur verðlaunin í Kaupmannahöfn 2. nóvember og hlýtur handhafi þeirra verðlaunagripinn Norðurljós ásamt 300 þúsundum danskra króna.