• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Bál tímans tilnefnd


Í gær var tilkynnt hvaða íslenskar bækur eru tilnefndar til barna- og unglingabókmennta Norðurlandaráðs árið 2022. Önnur þeirra er Bál tímans – Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár eftir Arndísi Þórarinsdóttur.


Úr rökstuðningi dómnefndar:


Hvernig skrifar maður um eldgamalt skinnhandrit og mörg hundruð ára gamlan þjóðararf þannig að nútímabörn langi til að lesa? Arndísi Þórarinsdóttur hefur tekist það listilega vel með því að setja sig í spor Möðruvallabókar og skrifa þvæling hennar í gegnum Íslandssöguna sem háskalega spennusögu.
[...]
Það er kúnst að gefa gömlu skinnhandriti rödd sem getur tengt börn dagsins í dag við ævafornan menningararf heimsbyggðarinnar. Í Báli tímans hefur það tekist einstaklega fallega með sammannlegri sorg yfir sögunum sem glötuðust og gleðinni yfir þeim sem varðveittust þrátt fyrir endalaust stríðsbrölt mannanna.

Hin bókin sem er tilnefnd er Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason og er hún myndlýst af Rán Flygenring.


Alls eru 13 norrænar bækur af ýmsum toga tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022 og er myndabókaformið áberandi í ár. Verðlaunin verða afhent í haust í Helsinki.