• Soffía Auður Birgisdóttir, ritdómur

Arnheiðarþing 16. október


Í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli Arnheiðar Sigurðardóttur verður haldið málþing henni til heiðurs, laugardaginn 16. október í fyrirlestarsal Landsbókasafns í Þjóðarbókhlöðu. Að málþinginu standa Rannsóknasetur Háskóla Íslands á H0rnafirði, Þýðingasetur Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar.


Arnheiður Sigurðardóttir var fædd á Arnarvatni 25. mars 1921. Arnheiður þráði að mennta sig allt frá því hún var lítil stúlka, en sá draumur virtist fjarlægur bæði vegna þess að efni foreldranna voru ekki mikil og að sjaldgæft var að konur legðu stund á háskólanám á þeim tíma sem hún var að alast upp. Hún átti þó eftir að leggja á menntabrautina, eins og titill endurminninga hennar, Mærin á menntabraut (1997), bendir á.


Arnheiður stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni, fór að því loknu í Kennaraskólann í Reykjavík og lauk þaðan kennaraprófi vorið 1944. Að prófi loknu kenndi hún við ýmsa skóla í nokkur ár en hugur hennar stóð alltaf til frekara náms. Hún stundaði nám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn í eitt ár og kenndi samfellt eftir það í nokkur ár. Vorið 1954 lauk hún stúdentsprófi og hóf nám í íslensku við Háskóla Íslands. Þaðan lauk hún meistaraprófi 1962. Meistararitgerð hennar fjallaði um híbýlahætti á miðöldum og var hún gefin út af Menningarsjóði 1966 og er talin vera stórmerkt brautryðjendaverk. Arnheiður fór í námsferðir til Norðurlanda og Sovétríkin heimsótti hún í boði Lestrarfélags kvenna 1956.
 
Arnheiður starfaði um tíma á Handritastofnun Íslands, á Hagstofu Íslands og að loknu meistaraprófi var hún lengst af í hálfu starfi við Orðabók Háskólans. Arnheiður las fyrst kvenna útvarpssöguna í Ríkisútvarpið, það var hennar eigin þýðing á Brotið úr töfraspeglinum eftir Sigrid Undset.

Á málþinginu verður sjónum beint að skrifum Arnheiðar, fræðiriti hennar, sjálfsævisögu og þýðingum.


Málþingið hefst kl. 13:15 dagskráin er eftirfarandi:


13:00 Soffía Auður Birgisdóttir, inngangsorð

13:10 Ragnhildur Richter: "reyndi að vera sem prúðust og eðlilegust.": Um endurminningar Arnheiðar, Mærin á menntabraut.

13:40 Helga Kress: Af kvenpalli: Miðaldir í verkum Arnheiðar Sigurðardóttur


KAFFIHLÉ


14:30 Guðrún Kvaran: Um vinnu Arnheiðar á Orðabók háskólans.

14:45 Soffía Auður Birgisdóttir: Bókmenntaþýðandinn Arnheiður Sigurðardóttir. Í erindinu verður spáð í skáldsagnaþýðingar Arnheiðar.

15:15 Kristrún Guðmundsdóttir: Fáeinar ljóðaþýðingar. Í erindinu er varpað ljósi á af hverju Arnheiður þýddi ekki fleiri ljóð og birti opinberlega.