• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Arnfríður / Kristrún


Arnfríður Jónatansdóttir var hæfileikarík skáldkona sem sendi einungis frá sér eina ljóðabók um ævina. Hún fékkst við nýjungar í ljóðagerð á sama tíma og hin svokölluðu „atómskáld“ en ljóðabókin Þröskuldur hússins er þjöl kom út árið 1958, á hápunkti formbyltingarinnar í íslenskri ljóðagerð.


Það nægði reyndar ekki til að hún væri talin með í hópi atómskáldanna og nafni hennar bregður aldrei fyrir í umræðu um formbyltingarskáldin.


Ljóð hennar bera þó sömu einkenni og ljóð karlkyns formbyltingarskálda, svo sem lausbeislað form, samþjöppun í máli og frjálsleg og óheft tengsl myndmáls.


Skáldkonan Kristrún Guðmundsdóttir (f. 1953), Suðurnesjakona með rætur norður í Þingeyjarsýslu, tileinkar Arnfríði samnefnt ljóð í bókinni Sólarkaffi sem kom út 2019, sama ár og bók Arnfríðar var endurútgefin.


Arnfríður


Blámöttluð bylgja hefur borið hana á þann stað

sem engin útgönguleið er lengur


hvar sem hún fer mótar fyrir örk

með gíraffa og apaketti


innanborðs er hún það sem vantar

mitt úti á firði syndir marbendill og hlær


birtan skær kveikir í henni skarpa löngun heim -

þar sem þröskuldur hússins er þjöl