• Soffía Auður Birgisdóttir

Anna frá Moldnúpi

Í dag er afmælisdagur Önnu frá Moldnúpi. Sigríður Anna Jónsdóttir fæddist 20. janúar 1901 í Gerðarkoti undir Vestur-Eyjafjöllum. Foreldrar hennar voru Jón Eyjólfsson og Sigríður Þórðardóttir og með þeim flutti Anna um vorið að bænum Moldnúpi sem hún kenndi sig síðar við. Anna var elst þriggja systkina en hún missti móður sína í bernsku og ólst upp hjá föður sínum sem hún segir hafa veitt sér menningarlegt uppeldi og aldrei reynt að hemja ævintýraþrá sína. Anna ólst upp við hefðbundin íslensk sveitastörf, bóklestur og samræður. Sem unglingur sótti hún einnig sjóróðra með föður sínum undan suðurströndinni.


Anna var merkileg kona. Fyrstu opinberu skrif hennar voru blaðagreinar. Eftir því sem næst verður komizt, geystist hún fram á ritvöllinn síðla árs 1942 með skeleggri grein í Alþýðublaðinu um kirkjubyggingar í Reykjavík. Úr því varð ritdeila við Sverri Kristjánsson sagnfræðing þar sem Anna fór mikinn.


Næstu árin háði Anna ritdeilur við fleiri þjóðþekkta menn um stjórnmál og menningu og kom ætíð fram sem fulltrúi alþýðunnar, hvergi bangin. Hún var sannfærð um að rödd sín og skoðanir ættu rétt á sér, rétt eins og skoðanir „hinna háu herra“. En hún skrifaði líka mikið um málefni heimabyggðar sinnar, svo sem um vanda bænda eftir Heklugos 1947 og og um tapið, sem sveitungar hennar urðu fyrir, þegar bókasafn þeirra varð eldi að bráð.


Ferðabækur Önnu

Um miðja öldina hætti Anna blaðaskrifum að mestu. Þá var hún að nálgast fimmtugt og útþráin hafði fangað huga hennar. Vorið 1947 fór hún sína fyrstu utanlandsferð, síðan aftur á árunum 1948, 1950, 1959 og 1959. Hún ferðaðist m.a. um Danmörku, England, Frakkland og Ítalíu. Um allar þessar ferðir skrifaði Anna bækur, sem og um Ameríkuför sína árið 1964.


Ferðasögur Önnu eru langar og miklar, nákvæmar lýsingar á því, sem fyrir augu bar og hvernig heimurinn kom ferðalangnum fyrir sjónir. Anna hafði mikinn áhuga á menningu þeirra landa, sem hún ferðast um, skoðaði kirkjur, söfn og merkar minjar af miklum dugnaði og lagði sig í líma við að kynnast heimamönnum, hvar sem hún kom. Anna var sparsamur ferðalangur og úr því spinnust margar skemmtilegar aðstæður. Hún þurfti ævinlega að lifa eins spart og nokkrum manni var unnt og samskiptin við þá, sem skutu yfir hana skjólshúsi, voru oft skemmtileg.

Hótel Anna á Moldnúpi

Á Moldnúpi er nú rekið gistihúsið Hótel Anna og þar innandyra má sjá mikið af fallegu handverki og vefnaði Önnu.Anna frá Moldnúpi lést í Reykjavík haustið 1979.


Rannsókn á bókum Önnu

Sigþrúður Gunnarsdóttir, ritstjóri og bókmenntafræðingur, hefur skrifað mjög fróðlega og skemmtilega bók um Önnu frá Moldnúpi og bækur hennar, sem byggð er á lokaritgerð hennar í íslensku við Háskóla Íslands og kom út árið 1998.


Fullur titill bókarinnar er: Fjósakona fór út í heim: Sjálfsmynd, skáldskapur og raunveruleiki í ferðabókum Önnu frá Moldnúpi.


Skáld.is mælir með bókum Önnu frá Moldnúpi, sem og með bók Sigþrúðar.