• gus2605

Afmælisbarn dagsins


Ljóðskáldið Ingunn Snædal fagnar fimmtugsafmæli í dag, 10. ágúst, og óskum við henni hjartanlega til hamingju með daginn.


26 ár eru síðan fyrsta ljóðabók Ingunnar, Á heitu malbiki, kom út en alls hefur hún sent frá sér fimm ljóðabækur. Ljóð skáldkonunnar hafa alla jafna vakið mikla athygli og hlotið góðar viðtökur en önnur bók hennar, Guðlausir menn, hugleiðingar um jökulvatn og ást, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og var auk þess tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.


Fyrir sex árum kom út heildarsafn ljóða Ingunnar ásamt áður óbirtum ljóðum. Eins og kemur fram í grein Steinunnar Ingu Óttarsdóttur um ljóðasafnið yrkir skáldkonan gjarnan um náttúruna, ferðalög, ást og ástleysi en í ljóðum hennar er ískrandi írónían sjaldnast langt undan. Um skáldskap Ingunnar segir Steinunn Inga meðal annars:


Hversdagsleg ljóðræna og ærlegar tilfinningar eru aðalsmerki Ingunnar, hún yrkir ekki um kvenlegan veruleika eða kvenmyndir eilífðarinnar og er hvorki róttækt, femínískt né erótískt skáld né yrkir hún um samkynhneigðar ástir. Skáldskapur hennar er allra; skýr, knappur og hnyttinn og yrkisefnin sammannleg. Hún er lárviðarskáld og landsbyggðartútta, heimskona dregin upp úr dalalífi, með heitar tilfinningar sem hún hikar ekki við að flíka, um leið og hún breiðir yfir sársaukann með kaldhömruðu glotti.

Auk þess að vera hnyttið og skemmtilegt ljóðskáld er Ingunn afbragðsþýðandi en hún þýðir jöfnum höndum reifara og heimsbókmenntir og allt þar á milli.


Í tilefni dagsins rifjum við upp ljóð úr þremur bókum Ingunnar og vonum að ekki sé langt að bíða eftir næstu ljóðabók.ævintýri


fyrir þig

myndi ég gjarna

bera inn sólskin

í botnlausum potti

allan daginn


kreista sólina

svo gulir taumar

rynnu um þig allan
útilega


tvö stór ský á

fleygiferð um

bláglóandi himin

breytast í bjöllu

í bíl í kassa í andlit

í skakkt hjarta …


hrekk upp úr

hugsunum mínum við

kitlandi tilfinningu í eyra

sný höfði og

þarna liggur þú við

hlið mér í neongrænu

grasi og heldur á

löngu puntstráiættareinkenni


en leiðinlegt fyrir

ykkur systurnar

að vera ekki háar

og grannar eins og

mamma ykkar

sagði amma alltaf


elskan mín

þú ert eins og vörubílstjóri

um axlirnar


er einhver hissa þótt

ermalausir kjólar

finnist ekki í mínum fataskáp