• Helga Jónsdóttir

Bogi


Ljóð vikunnar er eftir Sunnu Dís Másdóttur og nefnist „Bogi“. Sunna er ein þeirra sex skáldkvenna sem mynda ljóðakollektívið Svikaskáld og birtist ljóðið í öðru ljóðverkinu sem þær gáfu út saman, Ég er fagnaðarsöngur (2018). Önnur ljóðverk sem Svikaskáld hafa sent frá sér eru Ég er ekki að rétta upp hönd (2017) og Nú sker ég netin mín (2019).Bogi


Krosslegðu ekki fótleggi

segir amma

þú færð æðahnúta


en ég var í skátunum

ég hnýti mína eigin hnúta

ríð mín eigin net


tálga örvar

yfir sakamálaþáttum vetrarins

ein ör fyrir hverja

myrta konu


réttu úr bakinu

segi ég systur minni

sittu gleið


spenntu lífbeinið mót þeim

eins og boga