SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir29. ágúst 2020

UM ORLANDÓ - ÆVISÖGU

 

Eftirmáli við íslenska þýðingu á Orlandó. Ævisögu eftir Virginiu Woolf sem kom út á íslensku í þýðingu 2017 (aðeins styttur)

 

Orlandó – ævisaga er í hópi merkustu skáldsagna Virginiu Woolf og sú skemmtilegasta að margra áliti. Sé hún borin saman við aðrar skáldsögur höfundarins vekur athygli léttleikinn sem einkennir hana, stíllinn er hispurslaus og fjörlegur og tök höfundar á söguefninu einkar frjálsleg og nútímaleg. Það á ekki síst við þær hugmyndir sem fram koma í verkinu um kyn, kynferði og kyngervi, sem og hin fjölbreyttu sjálf sem persóna Orlandó býr yfir. Slíkar hugmyndir má segja að séu efst á baugi nú á dögum en þær sættu vitaskuld miklum tíðindum á útgáfuári bókarinnar, 1928. Í dagbók sinni lýsti Virginia Woolf skrifunum á Orlandó sem „rithöfundarfríi“; að hún hefði notið þess til fullnustu að skrifa texta sem væri ekki alvarlegur, hún hefði skrifað bókina hratt og textinn væri bæði gáskafullur og fífldjarfur á köflum.[1] Strax í formála verksins hefst leikur Woolf að ævisagnaforminu en slíkur leikur einkennir frásögnina af ævi Orlandó frá upphafi til enda. „Ævisagnaritarinn“ þarf svo sannarlega að kljást við ýmis vandkvæði í tilraun sinni til að ná utan um æviferil sem teygir sig yfir meira en þrjár aldir og persónu sem skiptir um kyn í miðri frásögn. En þótt ævi Orlandós spanni meira en þrjú hundruð ár hefur persónan ekki náð fertugsaldri við bókarlok. Hugleiðingar um tímann og söguna eru ætíð í bakgrunni frásagnarinnar en hvort tveggja lýtur aðeins ímyndunarafli skáldsins, því í bland er frásögnin fantasía þar sem lögmál ‚raunveruleikans‘ þurfa að láta í minni pokann fyrir hinum skáldlega leik sem er iðkaður í verkinu.

Orlandó hefur verið kölluð „lengsta og yndislegasta ástarbréf bókmenntanna“[2] og er þar vísað til þess að Woolf byggir aðalpersónu bókarinnar að miklu leyti á vinkonu sinni – og ástkonu til skamms tíma –rithöfundinum Vitu Sackville-West (1892-1962). Reyndar er það ekki bara Vita sjálf sem leggur Virginiu til efnivið og nærir ímyndunarafl hennar, heldur einnig forfeður hennar og fjölskylda, sem og hið fræga ættarsetur fjölskyldunnar, Knole í héraðinu Kent, sem er fyrirmyndin að hinu höfðinglega sveitasetri Orlandós í stóru og smáu.[3] Það var sonur Vitu, Nigel Nicolson, sem lýsti bókinni á ofannefndan hátt og hann bætti við að þar rannsakaði Virginia Vitu niður í kjölinn: „Hún vefur hana saman við aldirnar, sveiflar henni úr einu kyninu yfir í annað, leikur sér að henni, klæðir hana í loðfeldi, blúndur og gimsteina, stríðir henni, daðrar við hana, sveipar hana þokumóðu og endar á að taka af henni mynd í moldarflagi hjá Long Barn, með hundana sína.“[4] Þar vísar Nicholson til síðustu ljósmyndarinnar sem prýðir bókina en myndirnar átta tilheyra einnig leiknum með gervi og ævisagnaritun sem fram fer í bókinni.

En það væri rangt að líta á Orlandó einungis sem lýsingu á Vitu Sackville-West, lýsing aðalpersónunnar er mun flóknari en svo og ljóst er að Virginia Woolf byggir hana ekki síður á sjálfri sér en vinkonu sinni. Verkið er fullt af vísunum í önnur skrif Virginiu Woolf, þar sem hugleiðingar um skáldskapinn, tímann, náttúruna, mannlegt eðli, ást og kynferði enduróma ýmis fyrri skrif hennar og vísa einnig fram til síðari verka. Næsta bók hennar á eftir Orlandó var Sérherbergi (A Room of One‘s Own, 1929). Þar útfærir hún nánar ýmsar hugmyndir sem renna sem rauður þráður í gegnum frásögnina af Orlandó, svo sem hugmyndina um að í okkur öllum búi ‚eðli‘ beggja kynja og manneskjan verði ekki hamingjusöm nema kynin renni saman í eitt í mannshuganum. Og slík eining þarf einnig að ríkja í samfélaginu:

Hið eðlilega og þægilega lífsform væri það þegar bæði kynin lifðu í sátt og samræmi og ynnu saman sem andlegir jafnokar. Ef maður er karlmaður hlýtur kvenhluti heilans samt að hafa áhrif; og kona hlýtur einnig að hafa samskipti við karlmanninn í sér. Kannski Coleridge hafi átt við þetta þegar hann sagði að mikill hugur væri tvíkynja. Það er við þennan samruna að hugurinn verður frjóastur og getur nýtt alla eiginleika sína.[5]

Hugmyndir Virginiu Woolf ríma vel við ýmislegt sem fengist er við í kynjafræðum nú til dags og ekki síður í ævisagnafræðum sem blómstra nú sem aldrei fyrr; á því sviði var hún óhemju framsýn og frjó. Hún skrifaði margar greinar um þessa tegund bókmennta og í einni þeirra, „Nýja ævisagan“ („The New Biography“), líkir hún ævisagnaritun við það að gera tilraun til að binda saman granít og regnboga. Ef markmið ævisögu er að miðla sannri mynd af persónuleika, skrifar hún, má líkja sannleikanum við granítið, sem er fast fyrir og stöðugt, en persónuleikanum við litríkan regnbogann, sem ómögulegt er að festa hönd á.[6] En þrátt fyrir óhöndlanleika regnbogans er sú ævisaga einskis virði sem ekki reynir að láta litbrigði hans auðga lýsingarnar á þeim ‚sannindum‘ sem sagt er frá í textanum. Sú ævisaga sem reiðir sig á staðreyndirnar einar er dæmd til að mistakast. Svo ljós persónuleikans fái skinið í gegn getur þurft að hagræða staðreyndunum; sumt þarf að lýsa upp, annað að skyggja, en í því ferli verður ævisagnaritarinn alltaf að sýna fullkomin heilindi, ítrekar hún. Woolf hafnar þeirri gömlu hefð sem felst í því að rekja sögu einstaklings frá „afreki til afreks, frá vegsemd til vegsemdar, frá embætti til embættis,“ eins og segir í Orlandó, það þarf einnig að gefa gaum innra lífi einstaklingsins, vonum hans og þrám, þeim ósýnilegu þráðum sem persónuleiki hans er ofinn úr.

Í áðurnefndum formála Virginiu Woolf þakkar hún ótal nafntoguðum vinum sínum fyrir að hafa aðstoðað sig við ritun bókarinnar. Hún nefnir aðeins þá sem hún stendur í þakkarskuld við og „koma fyrst upp í hugann“ en vert er að gefa gaum að þeim nöfnum sem þar koma fram: Defoe, Sir Thomas Browne, Sterne, Sir Walter Scott, Macaulay lávarður, Emily Brontë, De Quincey og Walter Pater, því þar getur að líta hið bókmenntalega ættartré hennar sjálfrar. Beinar og óbeinar vísanir í verk þessara skálda má finna í frásögninni og einnig má víða rekja stílleg tilþrif til sömu höfunda. Að hluta til er Orlandó óður til skáldskaparlistarinnar enda þráir Orlandó fátt meira en að „verða fyrsta skáld ættarinnar og varpa ævarandi ljóma yfir nafn sitt“. Í meira en þrjú hundruð ár glímir Orlandó við að semja kvæðið „Eikin eina“ og eikin, sem kvæðið er kennt við og stendur uppi á hæð nálægt sveitasetri Orlandós, er sú kjölfesta sem hann/hún leitar til aftur og aftur í því skyni að kyrra óróleika sálarinnar. Beittar og bráðfyndnar lýsingar höfundar á skáldum og gagnrýnendum, sem og hugleiðingar Orlandós um bókmenntir og skáldskap, kallast á við hinar fjölmörgu greinar sem Virginia Woolf ritaði um breskar bókmenntir samhliða skáldsöguskrifum sínum. Þeim skrifum hefur verið safnað saman á margar bækur. Þau veita, ásamt dagbókum hennar, bréfum og skáldsögum, einstaka sýn inn í breskar bókmenntir sem og hinn snilldarlega skapandi huga Virginiu Woolf og reyndar má segja að í Orlandó kjarnist þetta ævistarf höfundar á einkar skemmtilegan hátt.

Þýðingin á sér langa tilurðarsögu, enda ekkert áhlaupaverk að glíma við hlaðinn og margbreytilegan frumtextann sem í fyrstu virtist á köflum óþýðanlegur. Hafi Virginia Woolf skrifað bókina hratt verð ég að játa að ég þýddi hana hægt; um margra ára skeið hef ég gripið í verkið meðfram öðru og gefið mér góðan tíma til að nostra við þýðinguna. Ég hef valið þýðingunni létt og flæðandi stílsnið, líkt og einkennir frumtextann, og hef leyft mér að hnika til setningaskipan frumtextans og greinamerkjasetningu til að fella hana sem best að íslensku máli því ella hefði komið hik á flæðið. Ég forðast fyrnsku enda er málfar frumtextans nútímalegt og frjálslegt. 

[1]The Diary of Virginia Woolf. Vol. 3. 1925-30. London: Penguin Books, 1982, bls. 177.
[2] Nigel Nicolson. Portrait of a Marriage. Vita Sackville-West & Harold Nicolson. Chicago: The University of Chicago Press, 1973, bls. 202.
[3]Sjá Vita Sackville-West. Knole and the Sackvilles. London: The National Trust, 1991.
[4] Nigel Nicolson. Portrait of a Marriage, bls. 202-203.
[5] Virginia Woolf. Sérherbergi. Íslensk þýðing Helga Kress. Reykjavík: Svart á hvítu, 1983, bls. 137.
[6] Virginia Woolf. „The New Biography.“ Granite and Rainbow. 149 og áfram.