Ferskt blóðbragð

Þegar fyrsta bók Lilju Sigurðardóttur kom út, varð ritdómara að orði:

Glæpir eru algengt söguefni í íslenskum bókmenntum og hefur það væntanlega gerst samhliða óheillavænlegri þjóðfélagsþróun síðustu ára. Í nýrri glæpasögu, Sporum, eftir Lilju Sigurðardóttur kemur lunkinn raðmorðingi til skjalanna sem murkar lífið úr fórnarlömbum sínum á skelfilegan hátt.

Aðalpersóna sögunnar er Magni sem tekur að sér að aðstoða fyrrverandi maka sinn, Iðunni rannsóknalögreglukonu, við að leysa hryllilega morðgátu. Magni er nýkominn úr áfengismeðferð og þar sem morðin virðast tengjast samtökum óvirkra alkóhólista er hann á heimavelli. Hann tekst á við sporin sín skv. AA-fræðunum og glímir um leið við fortíð sína, sorg og veikleika og þroskast heilmikið í sögunni . Persónurnar heita margar goðfræðilegum nöfnum (Iðunn gefur Magna m.a.s. epli í lokin) en eru manneskjulegar og trúverðugar. Það er helst ameríski prófælerinn Megan sem virkar klisjulegur í Sporum: stórvaxið kvenskass sem hesthúsar heilu vínarbrauðslengjurnar en slær öllum löggum við í gagnrýninni rökhugsun. Bygging sögunnar er hefðbundin og sagan þétt, í upphafi er dramatískri dauðastund eins fórnarlambanna lýst og brátt koma fleiri morð í svipuðum dúr inn á borð lögreglunnar, ýmsir eru grunaðir og málin flækjast. Spennan vex eftir því sem líkin hrannast upp og meira reynir á edrúmennsku Magna.

Karlar hafa lengi verið ráðandi bæði sem aðalpersónur og höfundar glæpa- og spennusagna. Það er því sérlega gleðilegt að fá fleiri verk eftir konur í þessum geira. Höfundi gengur þó misvel að tileinka sér karlmannseðlið og þegar tilhugsun um súludansmeyju vekur Magna losta heyrist : „Karlmenn eru bara stundum svo furðulegir“ ( 129). Mikilvægast er að formúlan virkar og ráðgátan raðast alveg saman, það gengur ágætlega upp að tengja á milli trúarpælinga samtakanna og morðanna sem eru táknfræðileg og vandlega skipulögð.

Blóðbragðið sem heldur manni á sporinu er ferskt. Morð í íslenskum glæpasögum eru oft framin óvart, í skyndibrjálæði eða á fylleríi en hér er alvörumorðingi á ferð. Fyrsta bók Lilju Sigurðardóttur er í grunninn fínasta spennusaga, vel byggð og metnaðarfull, en líður dálítið fyrir ákafan boðskap fræðanna sem hún er kennd við.

(Steinunn Inga Óttardóttir, 2009)