• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Eldhús eftir máli

Stuttmynd eftir sögu Svövu Jakobsdóttur, Eldhús eftir máli, verður frumsýnd á RIFF í ár.

Höfundar myndarinnar eru Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir og Atli Arnarsson, sem kalla sig stillakynnir.

Leikmunur í réttri stærð. Skjáskot af instagram-síðu Stilla.is

Kvikmyndaformið er svonefnd stillumynd sem sameinar ótrúlega marga miðla, s.s. ljósmyndun, leikmuna- og leikmyndargerð, brúðugerð, hljóð og alls konar tækni. Verkefnið hófst árið 2018 og hefur því tekið tvö ár að fullvinna myndina. Báðir hafa stillumyndasmiðirnir bakgrunn í tónlist. Sólrún Ylfa stundar fiðlunám í Kaupmannahöfn og Atli er hljóð- og tónlistarmaður. Hljóðmynd Eldhúss eftir máli er enda fjölbreytt og vönduð og talsetning er á herðum fagfólks, segir á vef rúv. Myndin er s.s. brúðumynd og leikmunirnir eru ótrúlega smáir og haganlega gerðir.

Verk Svövu Jakobsdóttur eru einstök í bókmenntasögunni, táknum hlaðin og absúrd, með femínískum boðskap sem á sannarlega erindi enn í dag. Leikrit eftir Völu Þórsdóttur sem byggt er á eða innblásið af smásögum Svövu var sett upp í smíðaverkstæði Þjóðleikhússins í desember 2005 í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Verkið hlaut Menningarverðlaun DV í leiklist 2005. Leikhúslistakonur 50+ stóðu fyrir leiklestri á leikverkum Svövu Jakobsdóttur á vordögum 2018 í Hannesarholti. Eldhús eftir máli, leikrit Völu Þórsdóttur eftir smásögum Svövu Jakobsdóttur var síðast í röðinni, miðvikudaginn 18. apríl og sunnudaginn 22.apríl. Verkefnis- og leikstjóri var Þórunn Magnea Magnúsdóttir. Verk Svövu eru víða lesin í skólum landsins og sífellt finnast á þeim nýir fletir.

Svava Jakobsdóttir (f. 1930) hafði með skáldsögum sínum, smásögum og leikritum mikil áhrif á íslenskt menningarlíf og samfélag á ofanverðri tuttugustu öld, en með verkum sínum miðlaði hún meðal annars skarpri sýn á stöðu konunnar í samfélaginu. Hún hefði orðið 90 ára í október í ár, en hún lést árið 2004.

Meiri um stuttmyndina frábæru, sjá instagram stilla.is

Smelltu hér til að sjá brot úr myndinni og viðtal við kvikmyndagerðarfólkið á vef rúv:

Á vefnum skáld.is er fantagóð grein Sigríðar Albertsdóttur um skáldskap Svövu.

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

  • Black Facebook Icon
  • Black Twitter Icon
  • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband