SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir15. ágúst 2020

Nýtt og spennandi lesefni

Forlagið Espólin hefur sent frá sér tvær nýjar bækur. Önnur er eftir Önnu Dóru Antonsdóttur, en hún er önnur forleggjaranna, en hin er eftir Kristrúnu Guðmundsdóttur.

Bók Önnu Dóru Antonsdóttur nefnist Brennan á Flugumýri og er ætluð ungu fólki á öllum aldri, líkt og segir í kynningu bókar á vefsíðu forlagsins. Sagan segir frá atburðum Sturlungaaldar, þ.e. bæjarbrennu og brúðkaupi á Flugumýri í Skagafirði, sem áttu sér stað árið 1253. Sagan er myndskreytt af Elísabetu Kolbrá Úlfarsdóttur og Mio Storåsen og er í svipuðum anda og Bardaginn á Örlygsstöðum eftir Önnu Dóru sem kom út árið 2013.

Bókin eftir Kristrúnu Guðmundsdóttur nefnist Ráf í Reykjavík og er tilbrigði við smásöguna Gatan í rigningu eftir Ástu Sigurðardóttur (1930-1972). Í sögunni ræður ríkjum gatan, hafgolan og regnið og í aðalhlutverki er ráfandi götustelpa, líkt og í sögu Ástu. Þegar sólin skín er hún glöð og þakklát fyrir lífið. Það er engin tilvistarkreppa og bænir eru heyrðar.