SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir12. ágúst 2020

Draumfarir og Drekkingarhylur

 

Þóra Karítas Árnadóttir sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Mörk: saga mömmu, árið 2015 og vakti hún talsverða athygli. Nú er von á annarri skáldsögu frá Þóru, sem kallast Blóðberg, en þessa dagana er hún að fara yfir lokapróförk hennar. Blóðberg byggir á sannri sögu, líkt og fyrri skáldsagan, og segir frá Þórdísi Halldórsdóttur sem hlaut þau hræðilegu örlög að vera drekkt í Drekkingarhyl. Öll tildrög sögunnar eru með miklum ólíkindum.

Konurnar í Drekkingarhyl

Þegar Þóra hafði nýlokið við að senda frá sér skáldsöguna Mörk var hún að hugsa um heppilegt efni í aðra sögu. Þá dreymir hana að hún fái fundarboð frá Bubba og Jóhanni Páli fyrrum eiganda Forlagsins. Þegar hún vaknar furðar hún sig á þessu og flettir upp Bubba á netinu. Þá komst hún að raun um að Bubbi hafði samið heila plötu eftir að hafa dreymt konurnar sem drekkt var í Drekkingarhyl. Draumur hans snerist um að hann hafði verið að veiða við hylinn og þá rekið augun í strigapoka með konum að koma upp úr ánni.

Þóra ákvað að herma þetta eftir Bubba og skrifa um eina af þeim konum sem drekkt var í hylnum. Hún hugsaði með sér að það gæti verið gott að tala um þetta við Bubba en þá hafði hann samband að fyrra bragði með því að senda henni þakkarbréf fyrir skáldsöguna Mörk sem hann var nýbúinn að lesa. Því varð það úr að þau spjölluðu saman yfir kaffibolla.

Þórdís Halldórsdóttir

Þóra segir það hafa verið tilviljun sem leiddi til þess að hún valdi Þórdísi úr þeim átján kvenna hópi sem var drekkt. Þórdís Halldórsdóttir var ung stúlka sem var borið á brýn að hafa eignast barn með mági sínum og fyrir þær meintu sakir var hún tekin af lífi. Þóru fannst það áhugavert að Þórdís átti víst nokkuð gott líf í ein tíu ár eftir að barnið fæðist en eftir þann tíma féll Stóridómur. Í bókinni segir hún m.a. frá því að notuð hafi verið fingraklemma til að knýja fram játningu um að hinn grunaði mágur hennar ætti barnið. Þórdís hafi síðan dregið játninguna strax til baka og því viti enginn hvort það hafi verið raunin.

Það verður spennandi að sjá hvernig Þóra gerir þessu áhugaverða efni skil. Hér má hlýða á Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur ræða við Þóru í þættinum Segðu mér á Rás 1.