SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 3. ágúst 2020

Aumingja kóngsdóttirin

Halldóra B Björnsson. Mynd Mbl.

Halldóra B. Björnsson (1907-1968) var skáld gott og þýðandi. Hún þýddi Bjólfskviðu sem kom út með myndskreytingum eftir Alfreð Flóka. Halldóra starfaði mikið að félagsmálum, var einn stofnenda Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna og sat í stjórn Rithöfundafélags Íslands. Þá tók hún mikinn þátt í samtökum hernámsandstæðinga.

Birt er hér brot úr smásögunni Ellefu skyrtur eftir Halldóru. Sagan birtist í Eitt er það land, árið 1955 en það er eins konar skáldævisaga með myndskreytingum eftir Barböru Árnason. Birgir Indriðason, grúskari mikill og einn dyggra lesenda skáld.is, rakst á þetta skemmtilega brot í bókinni og birti á facebooksíðu sinni á dögunum. Hann gaf skáld.is góðfúslegt leyfi til að endurbirta það hér. Millifyrirsagnir eru frá ritstjórn. Textinn bregður svo sannarlega upp skýrri mynd af stöðu kvenna í veröld sem var.

Strákarnir ærslast eins og bestíur

„Það getur verið svo hlálegt og vandræðalegt að vera stelpan í hópnum. Stundum er hún látin sitja inni í bæ heila og hálfa dagana, meðan strákarnir ærslast úti eins og bestíur. Hún verður að gera sér það að góðu að sitja með prjóna í höndunum, sem hún kann engin tök á ennþá, eða stagla eitthvað með mislitum garnspottum í tusku, sem verður svo höfð til sýnis, þegar konurnar af hinum bæjunum koma í heimsókn með dætur sínar, fyrirfram vissar um að fá að sjá handavinnu heimasætunnar, og það bregst aldrei að þær hrósa henni hvernig sem hún er: Ljómandi er þetta fallegur krosssaumur, þetta er vel gert af ekki eldri krakka.

Ja, sú verður einhverntíma myndarleg til handanna, ef hún lifir.

Það er að vísu mikið leggjandi á sig fyrir svona falleg orð og klappið sem þeim fylgir. Og þetta er sagt svo einlæglega að hún trúir því sjálf að það sé dagsatt, hún á allt þetta hrós skilið, hefur unnið til þess - og brosir hæversklega, sæl og undirleit.

Og henni tekst næstum að telja sjálfri sér trú um að það sé ekki nema sjálfsagt að sætta sig við þetta, það sé eðlilegt hlutskipti hennar, að því hún sé stelpa og verði að vera myndarleg í höndunum, og hún veit að hún getur ekki orðið það nema hún læri allt sem fullorðna kvenfólkið getur kennt henni. Og því keppist hún við útsauminn, þótt fingurnir verði sárir, en vanrækir alveg vettvang strákanna - úti, nema hvað hún skýst stöku sinnum í rökkrinu út á sleða, eða með kýrleggi á svellið fyrir neðan kálgarðinn.

En þegar komnir eru útmánuðir, með sólbráð og auða þúfnakolla og vaknandi læki undir krímóttu snjóþakinu, þá er sannarlega meira gaman að reka lömbin út á Stekkjarbörðin og sjá þau stympast áfergjulega um gulleita vornálina, sem á strjálingi er að koma undan fönn, heldur en sitja með ólukkans prjónana og vera myndarleg í höndunum.

bokin.is

Upprakning og togbandsgroddi

Og það er nú meira hvað þetta getur verið seinlegt. Það munar næstum ekkert um hverja lykkjuna. Stundum verður hún líka að rekja upp það sem búið er að basla við tímunum saman, því eitthvað hefur verið gert skakkt. Þegar hún sýnir mömmu sinni íleppinn og heldur að allt sé í stakasta lagi, þá er kannski ófétis leppurinn orðinn helmingi breiðari í annan endann, eða þá að gleymzt hefur að setja eina rauðu röndina, þar sem hún átti að vera. Og þegar búið er að rekja upp verður að prjóna aftur úr sama bandinu og þá er það allt í bugðum og krókum og hálfu verra að prjóna úr því en áður. Það er heldur ekki látið bezta bandið í hendurnar á krökkunum, sem eru að byrja að halda á prjónum, en oftast valinn togbandsgroddi, sem særir bæði fegurðarskyn þeirra og fingurna.

Það vantar heldur ekki mikið á að hún sé búinn að stinga gat á sleikipott vinstri handar. Það er hann sem mest mæðir á, því hann verður að halda bandinu, meðan verið er að prjóna; því er tvívafið utanum hann, og þar að auki rekst hann oft í hægri handar prjóninn, þegar hann er að sækja bandið í lykkjuna.

Úr álögum

Svo er hún mitt í öllu prjónabaslinu farin að vorkenna kóngsdótturinni góðu, sem varð að vinna það til að prjóna skyrtur handa ellefu bræðrum sínum á einni nóttu, til að frelsa þá úr álögum, sem þeir höfðu komið sér í, líklega með óþekkt og glannaskap. Og mikið hlýtur hún að hafa verið orðin þreytt, þó aldrei nema hún hafi prjónað þær laust, að ekki skyldi vanta nema eina ermi, þegar hún afhenti skyrturnar að morgni og frelsaði alla strákana.

Og meðan hún prjónar togbandsúrrakið, og hallar undir flatt, er hún að leggja það niður fyrir sér, hvort hún myndi nokkurntíma verða svo dugleg að geta prjónað þessar tvær skyrtur, sem þyrfti til þess að frelsa strákana, bræður hennar, ef þeir kæmust einhverntíma í svona klandur, eða yrðu settir í tugthúsið, því það er aldrei að fortaka hverju strákar kunna að taka uppá, þegar þeir stækka. - En hún skyldi reyna það.

- -

Kölluðust líka menn

En í Þykjastmannalandi ríkti meira kvenfrelsi en þekktist í öðrum löndum á þeim tíma. Þar voru stelpur líka kallaðar Þykjastmenn, alveg eins og strákarnir, þar heyrðist aldrei talað um þykjaststelpur. Þær nutu allra sömu réttinda og strákar, og hétu allteins oft strákanöfnum í Þykjastmannaleikjum. Þær áttu sínar jarðir sjálfar og stóðu fyrir búum sínum, þær voru bændur.

Stundum voru þær líka hreppstjórar eða prestar í sinni sveit, engu síður en strákarnir. Tryppin sín tömdu þær líka sjálfar og fóru lestaferðirnar og smöluðu afréttarlöndin. Á stríðstímum voru þær kóngar, eða aðrir framámenn, sem réðu fyrir þjóðum. Sem sagt, þær höfðu allar sömu skyldur og sömu réttindi og kölluðust líka menn. Aðeins í einu er vitað að þær stæðu strákunum að baki: þær gátu aldrei sprænt eins langt og þeir.

Það var því ekkert tilhlakk fyrir svona virðingapersónur í eiginlandi, að fá yfir sig þvílíka dembu hjá alvörufólkinu, þegar komið var heim úr kátum leik: Að þú skulir láta svona, hálffullorðin stelpan. Þú ert ekki nokkurn hlut betri en strákarnir. Skyldi þér ekki vera þénugra að læra að prjóna sokkinn þinn heldur en svína þig uppfyrir haus á hverjum degi. Láttu ekki sjá þig svona oftar.

Hvað þurfa kóngssynir að kunna?

Stelpan átti að vísu engin svör við þessu og varð að láta sig hafa það að húka inni ísköld á fótunum, við að prjóna eða bætingar, með fullorðna kvenfólkinu 1-2 daga. En til allrar lukku brást það aldrei, að ekki leið á löngu áður en þurfti að kalla til hennar í útisnatt. Hún var beðin að sækja lömbin eða vatna hestunum, og fór þá ekki hjá því að hún tæki við sínu hlutverki í útilegumanna- eða stríðskallaleiknum, og gleymdi því rækilega aftur, að hún heyrði undir allt aðra siði og önnur lögmál en strákarnir, í mannheimum.

En aumingja kóngsdóttirin. Skyldi það vera satt, að hún hafi getað prjónað allar skyrturnar?Og hvernig hefði það farið, ef strákarnir ellefu hefðu átt að frelsa systur sína? Væri ekki vissara að kenna öllum kóngssonum að prjóna?“