• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Halldóru Thoroddsen minnst


Skáldið Halldóra Thoroddsen kvaddi fyrr í þessum mánuði. Skrif hennar snertu marga strengi og skarðið er djúpt.

Í kvöld verður hennar minnst í Bókakaffinu á Selfossi, en það er rekið samhliða bókaútgáfunni Sæmundi sem gaf út síðustu verk Halldóru.

Þær Harpa Rún Kristjánsdóttir og Halldóra Ósk Öfjörð hafa báðar, með hléum, starfað í Bókakaffinu undanfarin ár. Segja má að bókin Tvöfalt gler marki upphaf vináttu þeirra, og skipar því höfundur hennar stóran sess í hjarta þeirra.

„Við áttum óvænt vakt saman á föstudaginn, eins og reyndar líka daginn sem Halldóra kvaddi. Okkur langaði að votta henni virðingu, minnast hennar og sýna þakklæti í verki. Þakklæti fyrir verkin,“ segja þær stöllur.

Ekki verður um hefðbundinn upplestur að ræða heldur mun andinn svífa yfir vötnum, en Harpa Rún og Halldóra Ósk ætla að lesa uppáhaldsbrot úr verkum Halldóru Thoroddsen þegar rými gefst til. Halldóra skrifaði bæði ljóð og örsögur auk lengri verka, uppfull af húmor, sársauka og sannleika, svo af nægu er að taka.

„Ef það er rólegt lesum við upp, ef það er brjálað bjóðum við fólki að lesa sjálft. Sumu verður streymt, annað tekið upp til að sýna seinna. Við ætlum að lesa úti og inni og allt um kring. Bjóða uppá ljóð með kaffinu, örsögur með kökunni, en fyrst og síðast bækur, bækur, bækur.“

Dagskráin er því án tímasetningar en gestir hvattir til að biðja um upplestur eða í það minnsta vera viðbúnir að hann bresti á með litlum fyrirvara, á milli kl. 13 og 16.

Myndin af Halldóru er fengin af síðu RÚV.