Halldóra Thoroddsen látin


Látin er í Reykjavík Halldóra Thoroddsen, skáld og rithöfundur.

Halldóra sendi frá sér ljóðabækur, smásögur og tvær skáldsögur. Fyrsta bók hennar kom út 1990, þegar hún var fertug. Hún hlaut Fjöruverðlaunin fyrir bók sína Tvöfalt gler árið 2016 og verðlaun Evrópusambandsins 2017 fyrir sömu bók. Hún hafði snilldartök á örsögu í skáldskap sínum og sat í pallborði með meistara formsins, Ana María Shua á bókmenntahátíð 2017.

„Orðheppin er hún með afbrigðum og ætti að fá aukaverðlaun fyrir að nota svo hnyttilega orðasambandið „að selja blíðu sína“ um áratuga starf við umönnun og barnakennslu. Hún vakti verulega athygli með eitursnjöllum örsögum, 90 sýni úr minni mínu (2002) þar sem hún sagði stórar sögur með fáum orðum. Í Aukaverkunum sem komu út 2007 tekur hún sér stöðu annálaritara eða þjóðsagnasafnara með gagnrýna sýn á nútímann en Halldóra hefur sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Ljóð hennar eru sömuleiðis beitt og bæði meitluð og myndvís“ segir Steinunn Inga Óttarsdóttir m.a. um verk Halldóru.

Úr Orðsendingum (2017)

Frá annálsritara

ekki gátum við unað því að æða á eftir vörumerkjum með leikjaforrit í höfði lifandi jarðarleirinn

það tókst ekki að skafa af okkur skítinn skera á strenginn þó reynt hafi verið frá árdögum

undum ekki ógrátandi ampúteruð úr samhenginu þrátt fyrir sútvörn og kvíðastillingu svona sólgin í fegurð bláþráðinn beint í kviku

í þessu fjöltengda faðmlagi deilum við álögum andardrætti, unaði og angri með öllu í senn hrein og mjúk í eðjunni

Ritstjórn Skáld.is vottar aðstandendum samúð. Missir þeirra er mikill og dapurlegt er fyrir íslenskar bókmenntir að njóta ekki fleiri skáldverka eftir Halldóru.