SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir27. júní 2020

Árstíðir -sögur á einföldu máli

Örsagnasafnið Árstíðir: Sögur á einföldu máli eftir Karítas Hrundar Pálsdóttur kom út hjá Unu útgáfuhúsi í janúar 2020. Bókin er frumkvöðlaverk þar sem hún er fyrsta safn skáldaðra frásagna sem ætlað er þeim sem leggja stund á íslensku sem annað mál.

Jafnrétti og virðing í forgrunni

Sögunar eru menningarlegar þar sem þær fjalla um siði og venjur á Íslandi. Innblástur sagnanna liggur í gildum sem eru almennt viðurkennd á Íslandi, til dæmis jafnrétti og virðingu; Sögurnar endurspegla því meðal annars jafnrétti kynjanna og virðingu fyrir ólíkri kynhneigð fólks.

Margbreytileiki mannlífsins

Í gegnum skáldaðar sögupersónur læra lesendur um lífið á Íslandi og fá tækifæri til að bera það saman við upplifun þeirra frá þeirra heimalandi. Sögupersónurnar hafa fjölbreyttan bakgrunn og eru á ýmsum aldri. Þá koma ólíkar fjölskyldugerðir við sögu, svo sem kjarnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og samkynhneigðir foreldrar. Þá er ein sagan sögð frá sjónarhorni manneskju sem er kynsegin og kýs að nota persónufornafnið „hán“. Margbreytileiki mannlífsins birtist einnig, til að mynda, í heyrnarleysi einnar sögupersónunnar og í því að önnur persóna er í hjólastól.

 

Kynjahlutverk

Margar sögur fjalla um jafnrétti kynjanna og koma inn á samskipti kynjanna og kynjahlutverk. Margar sterkar kvenpersónur koma við sögu sem og flottar íslenskar kvenfyrirmyndir á borð við Vigdísi Finnbogadóttur forseta, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, Guðrúnu frá Lundi rithöfund og Björgu C. Þorláksson, fyrstu íslensku konuna til að ljúka doktorsprófi.

Forsetafrú Íslands skrifar formála

Eliza Reid, forsetafrú Íslands, skrifaði formála bókarinnar. Í honum slær hún á létta strengi: Hún segir að glappaskot hennar væru efni í bók og að hún hafi oft óvart vakið misskilning með sínu íslenskutali en hvetur þá sem eru að læra íslensku sem annað mál að sýna þrautseigju því færni í tungumáli þurfi ætíð að halda við. Formálann endar hún á orðunum: „Ég vona að þið njótið allra þessara sagna eins vel og ég.“

Framhaldið

Karítas fékk styrk frá Jafnréttissjóði Íslands 2020 fyrir verkefnið Sögur á einföldu máli: Tungumála- og menningarlæsi og mun hún því halda áfram að þróa efni í anda örsagnasafnsins.