SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir25. júní 2020

Ný ljóðabók eftir Lindu Vilhjálmsdóttur

Linda Vilhjálmsdóttir er löngu orðin að góðu kunn fyrir skáldskap sinn. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók, Bláþráð, árið 1990 en hafði áður birt ljóð sín í dagblöðum, tímaritum og safnritum allt frá árinu 1982. Linda hefur einkum fengist við ljóðagerð en árið 2003 sendi hún frá sér sjálfsævisögulegu skáldsöguna Lygasögu.

Linda hefur sent frá sér átta bækur og hafa þær hlotið talsvert lof. Á síðustu árum hafa komið út ljóðabækurnar Frelsi (2015) sem hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum og var valin besta ljóðabókin það árið af starfsfólki bókaverslana, auk þess sem hún fékk verðlaun bókmenntahátíðarinnar „European Poets of Freedom,“ og Smáa letrið (2018) sem var tilnefnd til Maístjörnunnar.

Nú er von á nýrri ljóðabók frá Lindu og er hennar beðið með mikilli eftirvæntingu. Bókin sú nefnist kyrralífsmyndir og sér Forlagið um útgáfuna. Bókin mun trúlega rata í bókabúðir á morgun.