• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Guðrún Eva kynnir fimmtu landvættina


Okkar ástsæla skáldkona Guðrún Eva Mínervudóttir var fjallkona Hveragerðis í ár. Af því hátíðlega tilefni flutti hún frumsamið ljóð þar sem hún kynnti til sögu fimmtu landvættina sem hefur alltaf verið til staðar en ekki verið gefinn nægilegur gaumur, fyrr en nú.

Skáld.is fékk góðfúslegt leyfi Guðrúnar Evu til að birta þetta áhrifaríka ljóð og er myndin af henni fengin af láni af síðu Hveragerðisbæjar. Ljósmyndari er Aldís Hafsteinsdóttir.

Ávarp fjallkonunnar 2020

Vinir

Ég gekk upp hlíðina

upp á heiði

framhjá vörðunni sem varar

ferðalanga við því

að fara lengra

Sólin úthellti sér

yfir lággróðurinn

Sólskin og logn

runnu saman í eitt

Og þá varð ljóst

að á næstu grösum

í lyng-ilmandi loftinu

og allt um kring

tindruðu hin hinstu rök

Þá skal þess gætt

að líta ekki um öxl

heldur fylgja stígnum

áfram og upp

til lífs og til gleði

til tungls og stjarna

Upp, vinir, upp

lyftum hjörtum vorum

til himins

þar sem þau eiga heima

Lóur bíuðu

í kyrrðinni

Flugur suðuðu milli blóma

En allt þagnaði

þegar naut kom æðandi

með hárbeitt horn

og þandar nasir

Ég fann andardrátt þess

á augnlokunum

Blautar granir

strukust við vanga

Ég spurði griðunginn

hvert svarið væri við öllum sköpuðum hlutum

Styrkur, svaraði hann. Þolgæði

Fyrirstöður jafnaðar við jörðu

Gott og vel, sagði ég

og hélt áfram göngunni

Gríðarstór ránfugl

assa með hvöss augu

steypti sér niður

með gogg eins og bjúgsverð

vængi eins og leiktjöld

- Viljirðu vita hvert svarið er

get ég sagt þér það