SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 2. júní 2020

Nýjar slóðir fyrir fólk af erlendum uppruna

Bókin Nýjar slóðir: 12 stuttar léttlestrarsögur fyrir fólk af erlendum uppruna kom út á síðasta ári og er fyrsta bók Kristínar Guðmundsdóttur.

Bókin inniheldur stuttar og sjálfstæðar léttlestrarsögur þar sem leitast er við að útskýra orðin og orðasamböndin sem koma þar fyrir með því að láta einhvern upplifa þau eða tala um þau. Einnig fá ævintýri að fljóta með; skyggnst er inn í hugarheim dýra og veraldlegir hlutir fá líf. Þá er komið inn á sögu Íslands, matarhefðir og margt fleira sem tengist íslensku samfélagi um leið og það bætist við íslenskukunnáttu lesenda.

Bókin er skrifuð með fullorðinsfræðslu í huga en það geta allir lesið hana óháð stöðu, kyni og trú. Vinkona Kristínar benti henni á að það væri skortur á bókum fyrir fólk af erlendum uppruna og því ákvað hún að ráðast í verkið. Þetta er fyrsta bók Kristínar, líkt og áður hefur komið fram, en hún er rétt að byrja og er með efni í fleiri bækur sem hún vonast til að geta gefið út á komandi árum.