• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Tvær konur hlutu Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

Í gær var tilkynnt hverjir hlutu Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í ár en þau eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni; í flokki frumsaminna bóka, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga.

Í flokki frumsaminna bóka hlaut Margrét Tryggvadóttir verðlaunin fyrir bók sína Kjarval: málarinn sem fór sínar eigin leiðir og í flokki myndlýsinga hlaut Rán Flygenring verðlaunin fyrir bók sína Vigdís; bókin um fyrsta konuforsetann. Loks hlaut Þórarinn Eldjárn verðlaunin fyrir þýðingu sína á bók Tove Jansson: Hver vill hugga krílið?

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars um bók Margrétar að það sé mikill fengur í þessu verki og að lesendur séu listilega leiddir inn í samfélag, ævi og verk Kjarvals. Sögð sé saga á aðgengilegan hátt sem ætti að vekja áhuga allra á bæði Kjarval sjálfum og verkum hans og þannig stuðli hún að því að viðhalda áhuga þjóðarinnar á listamanninum sem og að afla honum nýrra aðdáenda.

Í umsögn dómnefndar kemur meðal annars fram um bók Ránar að farin sé frumleg leið til að kynna Vigdísi forseta fyrir yngri lesendum. Ungi rithöfundurinn leiki veigamikið hlutverk í sögunni og sé ekki síðri fyrirmynd en fyrsti kvenforseti þjóðarinnar. Þegar upp er staðið verði kjarkur hennar og framhleypni öllum til fyrirmyndar í þessari fallegu sögu um hugrekki kvenna á öllum aldri.

Í dómnefnd sátu Tinna Ásgeirsdóttir formaður, Ásmundur Kristberg Örnólfsson, Helga Birgisdóttir, Karl Jóhann Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.

Á vef Reykjavíkurborgar má nálgast allar frekari upplýsingar um verðlaunin.

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

  • Black Facebook Icon
  • Black Twitter Icon
  • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband