SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 8. maí 2020

Tvær konur tilnefndar til Maístjörnunnar

Í gær var tilkynnt hvaða bækur hlutu tilnefningu til Maístjörnunnar en það eru ljóðabókaverðlaun sem Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn standa saman að.

Fimm bækur eru tilnefndar og þar af eru tvær eftir konur. Annars vegar Undrarýmið eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur og hins vegar Kærastinn er rjóður eftir Kristínu Eiríksdóttur. Aðrar bækur tilnefndar eru Þvottadagar eftir Jónas Reyni Gunnarsson, Vellankatla eftir Þórð Sævar Jónsson og Uppreisnir eftir Þór Stefánsson.

Dómnefnd skipa Guðrún Steinþórsdóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Arnaldur Sigurðsson fyrir hönd Landsbókasafnsins. Þau tóku til umfjöllunar allar íslenskar ljóðabækur sem komu út í fyrra og var skilað til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Bækurnar má skoða í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar.

Þetta er í fjórða sinn sem verðlaunin verða veitt. Athöfnin fer fram í Þjóðarbókhlöðunni síðar í mánuðinum og er verðlaunaféð 350 þúsund krónur.