SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir22. apríl 2020

Þeir urðu merkismenn

Elsta dóttir Jóns Borgfirðings sem svo var nefndur og Önnu Guðrúnar Eiríksdóttir var Guðrún Borgfjörð (1856-1930) sem seinna skrifaði Minningar (pr. 1947), sjá hér.

Guðrún var vel gefin og víðlesin en átti þess ekki kost frekar en aðrar fátækar alþýðustúlkur á þessum tíma að ganga í skóla en fjórir bræður hennar fengu að fara í langskólanám og urðu merkismenn. Hún hóf á sjötugsaldri að skrifa endurminningar sínar og ná þær til ársins 1888. Verkið var því aðeins tæplega. hálfnað þegar Guðrún varð að leggja það frá sér og er vissulega skaði að henni skyldi ekki endast heilsa til að halda áfram. Minni hennar er traust og frásögn hennar merk heimild um tíðaranda, samferðamenn og aldarfar á Íslandi á 19. öld.

Aldrei hafði Guðrún samt hugsað sér að saga hennar yrði prentuð. Í eftirmála segir að Árni Böðvarsson hafi skrifað upp handrit Guðrúnar og útgefandinn, Agnar Kl. Jónsson, segist hafa „lagfært efnið“ eftir því sem honum þótti og fellt burtu kafla, mannanöfn og endurtekningar, vonandi hefur hann ekki spillt sögunni, honum var í mun að láta „stílbæ töntu minnar haldast“ (180).

Grípum niður í Minningar Guðrúnar:

Ég hafði stúlkur alls staðar að og hef kennt svo tugum skiptir. Oftast var ég heppin að fá myndarlegar stúlkur, en tiltölulega fáa klaufa. Þær komu á morgnana klukkan tíu og voru til þrjú. Ég tók sex krónur um mánuðinn fyrir stúlkuna. Svo saumaði ég allt hvað af tók seinni part dagsins. Ég hafði talsverða inntekt og gat keypt mér falleg og góð föt, en mikið gekk inn í heimilið. Ég vildi ekki láta móður mína vanta neitt, ef ég mögulega gat hjá því komist. Sú meðvitund að hafa getað stutt að því, að hún gat lifað áhyggjuminna lífi síðari árin, gleður mig svo ósegjanlega.

Á þessum árum kom ég mér upp ljómandi fallegum og vönduðum skautbúningi. Ég saumaði hann á þann hátt, að ég fór eitt sumar á fætur klukkan fimm á hverjum morgni og baldýraði eða skatteraði í samfelluna til klukkan átta. Þá fór ég að sauma eitthvað annað, sem af þurfti að komast. Ég kom af bæði pilsinu og borðunum á treyjuna og þóttist góð. Ég kom mér líka upp reiðtygjum og reiðfötum, en ekki keypti ég mikið af glysvörum eða gullstássi. Enginn skal halda, að ég hafi ekki reynt að vera alls staðar með, ef eitthvað var á seyði til skemmtunar. Jú, ég var svei mér með. Ég var kát og lífsglöð og hafði ákaflega gaman af að dansa, enda var ég á mörgum böllum...“

(99)