Stílblær töntu minnar fær vonandi að haldast


Bókin Elskulega móðir mín er heimildarrit sem varpar ljósi á bréfaskipti reykvískrar alþýðufjölskyldu á síðari hluta 19. aldar. Þetta var fjölskylda þeirra Jóns Jónssonar Borgfirðings og Önnu Guðrúnar Eiríksdóttur, en þau hjón héldu uppi um margra ára skeið samfelldum bréfaskiptum við börn sín sem mörg sigldu til Kaupmannahafnar til að afla sér menntunar eða lækninga. Elsta dóttir þeirra var Guðrún Borgfjörð sem seinna skrifaði Minningar (pr. 1947).

Guðrún var vel gefin og víðlesin en átti þess ekki kost frekar en aðrar fátækar alþýðustúlkur á þessum tíma að ganga í skóla en fjórir bræður hennar komust í lærða skólann, einn þeirra var Finnur, dróttkvæða- og málfræðingur í Kaupmannahöfn. Hún giftist aldrei en hélt lengi heimili fyrir bróður sinn, Klemens, sýslumann og landritara. Hún hóf á sjötugsaldri að skrifa endurminningar sínar og ná þær til ársins 1888. Verkið var því aðeins tæplega. hálfnað þegar Guðrún varð að leggja það frá sér og er vissulega skaði að henni skyldi ekki endast heilsa til að halda áfram.

Minni hennar er traust og frásögn hennar merk heimild um tíðaranda, samferðamenn og aldarfar á Íslandi á 19. öld. Aldrei hafði Guðrún samt hugsað sér að saga hennar yrði prentuð. Í eftirmála segir að Árni Böðvarsson hafi skrifað upp handrit Guðrúnar og útgefandinn, Agnar Kl. Jónsson, segist hafa „lagfært efnið“ eftir því sem honum þótti og fellt burtu kafla, mannanöfn og endurtekningar, vonandi hefur hann ekki spillt sögunni, honum var í mun að láta „stílbæ töntu minnar haldast“ (180).

Hér er brot úr Minningum Guðrúnar. Hún segir hér frá kynnum af Sigurði Guðmundssyni, málara (1833-1874) og lýsir Reykjavík fyrri tíma.

„Sigurður var áreiðanlega fæddur listamaður, en hann var líka olnbogabarn heimsins og hamingjunnar. Hann var merkilegur maður og skarpvitur, en einkennilegur var hann og ekki mikill fyrir mann að sjá, tæplega meðalmaður á hæð, grannvaxinn með dökkt hár og samlitt skegg, sem náði niður á bringu, gullfalleg augu, en nærsýnn með afbrigðum. Það var næstum óhuggulegt að sjá hann borða með nefið niður í diskinn, en eitthvað var það við hann, sem gjörði það, að maður tók meira eftir honum en öðrum. Sigurður var fáskiptinn um annarra hagi, en gat verið meinyrtur, ef talað var um menn eða málefni, sem ekki féll í hans geð. Fátækur var hann alla ævi. Ég efast um að hann hafi nokkurn tímann átt ytri föt til skipta, en hann var mjög þrifinn (80-81).

Sigurður hafði mikinn áhuga fyrir því, að Íslendingar ætti sjálfir flagg, en það var fálkinn, sem hann vildi hafa. Hann teiknaði því stóran fálka og fékk ungar stúlkur til að sauma hann á afar stóran dúk. Þær, sem saumuðu fyrsta flaggið, voru þær Hólmfríður Björnsdóttir, Guðrún Hjálmarsen, Þóra, dóttir Péturs biskups, og Jarþrúður, dóttir Jóns Péturssonar háyfirdómara. Ég man ekki hvenær þetta flagg var fyrst brúkað eða hver það átti eða hvort það er til ræfill af því eða ekki. Oft talaði Sigurður um, hvað það mætti gera Reykjavíkurbæ laglegan, ef vel væri að farið. Ég hlustaði oft hugfangin á hann, þegar hann var að lýsa því, hvernig þetta mætti verða. Hann vildi t.d. láta gjöra veg í kringum Tjörnina og planta trjám í það minnsta öðru megin við hana. Hann vildi líka láta setja tré í kringum Austurvöll og margt fleira.

En seinast, en ekki sízt, var áhugi hans fyrir Forngripasafninu. Þar var hann allur. Ég veit vel, að það var ekki Sigurður, sem safnaði fyrstu gripunum. Það var síra Helgi, en Sigurður hélt vel áfram, og það voru ekki fáir gripir, sem hann náði í.Hann var vakinn og sofinn yfir þessum gripum. Húsnæðið var ekki merkilegt, sem honum var látið í té, hálfdimmt pláss efsti uppi í dómkirkjuturninum. Flest allt varð að vera í kössum. Lítð var hægt að hafa uppi við fyrir plássleysi, og þar á ofan bættist, að þakið hriplak. Þarna var Sigurður að grúska í þessum munum og hagræða þeim og sýna, ef einhver kom til að skoða þá. Oft hef ég setið þar uppi sem krakki og hlustað á, þegar hann var að segja fólki frá, hvernig þetta og hitt hefði verið notað í gamla daga…

Ég veit ekki, hvað Sigurður fékk í laun fyrir starf sitt, en lítið þakklæti fékk hann. Sagt er, að Kristján IX. hafi átt að spyrja Hilmar landshöfðingja Finsen, þegar hann var búinn að skoða safnið, hver þessi maður væri, sem hefði safnað gripunum og hugsað svo vel um þá, og hafi þá Finsen átt að segja: „Nej, det er en doven hund.“ Hvort þetta er satt, veit ég ekki. Það er ótrúlegt, að Finsen hafi brúkað svo dónaleg orð við hans hátign, en nokkuð er það, að enginn sómi var honum (Sigurði) sýndur.

– Sigurður var lasinn allt sumarið 1874, fór á spítalann eftir hátíðina, en lá aldrei og skreið til Jóns Guðmundssonar hvern dag. Einn dag um haustið kom hann að vanda. Ég var þar þann dag, en svo var hann aumur, að frúin þorði ekki að láta hann fara einan, og var þó ekki langt að fara. Spítalinn var þar, sem Frelsisherinn er nú. Ég fór með honum, og urðum við að stanza í öðru hverju spori. Svo var mæðin mikil. – Hann dó daginn eftir.

Þegar hann var jarðaður, fylgdu honum nokkrar konur í hátíðarbúningi og höfðu svartar slæður. Það var sú eina virðing, sem honum var sýnd“ (83).