• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Skrá yfir sjálfsævisögur íslenskra kvenna


Gunnur Inga Einarsdóttir bókasafnsfræðingur tók saman skrá yfir sjálfsævisögur íslenskra kvenna árið 2011. Bókaskráin er meginuppistaðan í lokaverkefni hennar til BA gráðu í bókasafns- og upplýsingafræði við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Áslaug Agnarsdóttir.

Bókaskráin nær fram til ársins 2010 og er þannig uppbyggð að fyrst er birt bókfræðileg færsla um bókina og síðan fylgir ítarleg umsögn um hana. Bókaskráin geymir samtals 75 bækur og er gengið út frá þeirri skilgreiningu á sjálfsævisögu að þar skrifi höfundur um sjálfan sig. Þá dregur Gunnur Inga ennfremur mörkin við heilar bækur, þ.e. ekki styttri kafla eða sjálfsæviþætti.

Gunnur Inga gaf Skáld.is góðfúslegt leyfi til að birta lokaverkefni hennar og er mikill fengur að því. Bókaskráin er birt hér fyrir neðan og ritgerðina, sem geymir fleiri skrár, má nálgast hér.

Bókaskrá - sjálfsævisögur íslenskra kvenna fram til 2010

1. Alda Sveinsdóttir (2008). Kona í forgrunni: Vegferð í lífi og list, 100 bls., myndir. Reykjavík: Alda Ármanna.

Alda Sveinsdóttir fæddist árið 1936 að Barðsnesi við Norðfjörð. Höfundur bókarinnar er myndlistamaður og kennari en í þessari bók segir Alda aðallega frá lífi sínu og fjallar bæði um myndlistina og kennsluna. Í fyrsta kafla bókarinnar segir hún frá tilurð nafnsins Ármanna en hún hét fullu nafni Alda Ármanna Sveinsdóttir. Áður en Alda kom í heiminn var tvisvar vitjað nafns hjá foreldrum hennar í draumi og var það Ármann fyrri ábúandi að Barðsnesi sem drukknaði í brimlendungu við Barðsnes. Höfundur segir meðal annars frá skólagöngu sinni, dauða föður síns, þegar hún stofnaði fjölskyldu, kennslu í sérskólum og vinnu á geðdeild barna. Í sambandi við myndlistina segir hún frá myndlistafélaginu í Neskaupstað, myndlist fatlaðra, samstarfi við myndlistamenn og frá kvennaþinginu Nordisk Forum. Aftast í bókinni er verkaskrá, skrá yfir einkasýningar og samsýningar, skrá um verk í opinberri eigu og skrá um námsferil. Einnig prýða bókina myndir eftir Öldu. Efnisyfirlit er í bókinni.

2. Anna Borg (1965). Endurminningar og bréf með skýringum eftir Paul Reumert, 128 bls., myndir (Árni Guðnason þýddi). Reykjavík: Skuggsjá.

Anna Borg var fædd árið 1903. Í bókinni eru bréf Önnu Borg sem hún skrifaði frá Danmörku til Íslands og eru það aðallega bréf sem Anna skrifaði föður sínum. Paul Reumert eiginmaður Önnu Borg tók saman efnið í bókina eftir að Anna var látin. Hann skrifar formála og eftirmála og einnig stuttar greinar sem eru felldar inn í bókina til skýringar og gefa gleggri mynd af persónunni Önnu Borg. Bókin kom upphaflega út á dönsku árið 1964 og er titill hennar á frummáli Anna Borgs erindringer. Í bókinni kemur fram að Anna var sterkur persónuleiki, lítillát en metnaðarfull leikkona og hún vann hvern leiksigurinn á fætur öðrum. Hún varð ein virtasta leikkona Danmerkur og Norðurlanda. Paul Reumert eiginmaður Önnu var danskur og mikils metinn leikari í Danmörku og áttu þau tvo syni. Anna Borg lét lífið í flugslysi árið 1963 langt fyrir aldur fram. Þegar bókin kom út fékk hún mjög góða dóma á Íslandi og í Danmörku.

3. Anna frá Moldnúpi (duln. f. Önnu Jónsdóttur). (1950). Fjósakona fer út í heim, 456 bls. Reykjavík: Höfundur.

Anna frá Moldnúpi var fædd árið 1901 og lést árið 1979. Þessi bók Önnu frá Moldnúpi var gefin út árið 1950 og er ein þekktasta bók hennar og var hún þýdd á ensku árið 2010 undir titlinum A dairymaid travels the world. Anna frá Moldnúpi var mikil ferðakona. Hún ferðaðist um Ísland, Evrópu og Ameríku og skrifaði bækur um ferðalög sín. Þessi bók var sú fyrsta sem hún ritaði og segir frá fyrstu ferðalögum hennar. Hún byrjar á að fara hringferð um Ísland árið 1946 með skipi á tíu dögum. Síðan fór hún árið eftir með skipi til Danmerkur og dvaldi þar nokkra mánuði. Að lokum fór hún árið 1948 til Englands og meginlands Evrópu og dvaldi þar einnig í nokkra mánuði. Í ritdómi eftir Helga Sæmundsson í Alþýðublaðinu árið 1950 segir hann að Anna skrifi á lipru máli, segi mjög skemmtilega frá og að frásagnargleði hennar sé mikil. Í bókinni er efnisyfirlit.

4. Anna frá Moldnúpi (duln. f. Önnu Jónsdóttur). (1952). Förukona í París, 179 bls., myndir. Reykjavík: Höfundur.

Í viðtali í Morgunblaðinu árið 1998 við Sigþrúði Gunnarsdóttur segir hún að Anna líkt og margar konur afsaki sig í bókinni fyrir að vera að skrifa um sjálfan sig. Það er eins og þessar konur sem eru á jaðri samfélagsins finnist þær sjálfar ekki nógu áhugaverðar til að þess að fjallað sé um þær. Í formála bókarinnar eftir Önnu sjálfa kemur fram að tilgangur hennar með bókaútgáfum þessum sé að veita alþýðukonum, eins og henni, sem hafi aldrei haft tök á því að ferðast erlendis innsýn í ferðalög hennar til fjarlægra landa. Einnig að Anna hafði orðið vör við að fyrri bókin hafi náð tilgangi sínum og þess vegna hún réðist hún í að skrifa þessa bók. Í þessari bók fær Anna heimboð frá gömlum heiðursvinkonum sínum suður á hina Hvíteyju Englands. Þaðan fer hún til Parísar þar sem hún skoðar söfn og kirkjur. Þetta var í annað skiptið sem hún kom til Parísar og í þetta skiptið dvaldi hún þar í fimm vikur.

5. Anna frá Moldnúpi (duln. f. Önnu Jónsdóttur). (1954). Ást og demantar: Ferðasaga um meginlandið til Bretlands 1951: Litla stúlkan frá hrunda húsinu, kafli úr Parísarferð 1952, 186 bls., myndir. Reykjavík: Höfundur.

Í formála bókarinnar sem Anna skrifar kemur fram að þetta verði síðasta bókin sem hún ætli að skrifa en raunin varð önnur því hún átti eftir að skrifa tvær ferðabækur til viðbótar. Þetta er ferðasaga Önnu um Bretland árið 1951 og kafli úr Parísarferð hennar árið 1952 fylgir. Anna tók á sig krók og kom við í Kaupmannahöfn en þá var hún að efna loforð við systur sína um að hún skyldi sýna henni þennan forna höfuðstað Íslands. Hún segir frá spaugilegum samskiptum sínum við Jón Helgason prófessor í Árnasafni í Kaupmannahöfn. Þar há þau einvígi út af Guðspjöllunum sem endar á því að Anna rekur sjálfan prófessorinn á gat.

6. Anna frá Moldnúpi (duln. f. Önnu Jónsdóttur). (1961). Ég kveikti á kerti mínu: Ferðaþættir frá Ítalíu, 308 bls. Reykjavík: Höfundur.

Í þessari bók segir Anna frá ferðalagi sínu til Ítalíu þar sem hún heimsótti borgina eilífu Róm og marga merka staði aðra. Hún fór í Vatíkanið á fund páfa. Anna gekk á Via Appia Antica og skoðaði ýmsar smærri kirkjur í Róm. Einnig gerði hún sér ferð til Napólí. Í Alþýðublaðinu árið 1961 gagnrýnir Sigurður Einarsson í Holti Önnu fyrir að nota útlenskar slettur í skrifum sínum. Einnig finnst honum að henni hafi ekki farið fram í frásagnarlistinni og segir að prófarkalestur og réttritun sé ábótavant. Samt sem áður segir hann að fólk muni trúlega hafa gaman af að lesa bókina og að í henni sé heilmikill fróðleikur. Einnig kemur fram hjá Sigurði að Anna taki sérstaklega vel eftir öllu sem á vegi hennar verður. Í bókinni er efnisyfirlit.

7. Anna frá Moldnúpi (duln. f. Önnu Jónsdóttur). (1970). Tvennar tíðir, 153 bls. Reykjavík: Höfundur.