• Soffía Auður Birgisdóttir

... svo mörg voru þau orð


Seint á liðnu ári sendi Elísabet Kristín Jökulsdóttir frá sér sérstæða bók sem ber titilinn Hvaða ferðalag er á þér? Í bókina hefur Elísabet safnað saman ýmsum orðum og orðatiltækjum móður sinnar, Jóhönnu Kristjónsdóttur (1940-2017), eða eins og segir á forsíðu: Orðin hennar mömmu sem byrjuðu að spretta uppúr vitundinni eða minninu við lát hennar.


Titilinn er sóttur í orð sem Jóhanna sagði "oft þegar ég kíkti við á Drafnarstíg", skrifar Elísabet og hefst bókin á þeim og síðan streyma fram orðin á tæplega 50 blaðsíðum, sett upp með misstóru letri og mismunandi leturgerðum.


Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur kannast þarna við mörg orð og orðatiltæki sem voru algeng en virðast vera að hverfa úr málinu. Hér má nefna dæmi eins og Rotinpúruleg, spandera, dánumaður, dusilmenni, snurfus, ondúlering, og viltu auka leti mína? Önnur eru enn í mikilli notkun en gaman að sjá og segja má að sterk mynd af Jóhönnu birtist þegar rennt er í gegnum alla bókina.


Einnig birtist mynd af dæmigerðu móðir-dóttur sambandi, þar sem hin fyrrnefnda vandar til um við hina síðarnefndu: Í öllum bænum, hlífðu mér við þessu. Hvurslags heimtufrekja er þetta. Hvaða viðkvæmni er þetta! leyfist mér að spyrja, svona spyr maður ekki, svona segir maður ekki, vertu ánægð með þig, nú er komið nóg, Elísabet... Ég hef á tilfinningunni að ég fari í taugarnar á þér. Ósköð ertu eitthvað ræfilsleg ljúfan.


Þetta er óvenjuleg bók og skemmtileg, það eina sem finna má að er að bókin er í stóru broti og fer ekki vel í hillu hjá öðrum verkum Elísabetar!