SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir17. mars 2020

Margmála ljóð í netheimum

Á þessum fordæmalausu tímum þarf að leita annarra leiða en vant er til að halda uppi menningarlífinu. Það má hvergi láta deigan síga og því ætla Bókabæirnir austanfjalls, í samvinnu við Gullkistuna, að standa fyrir ljóðakvöldi á alnetinu næstkomandi laugardag, 21. mars.

Ljóðakvöldið er margmála í tilefni af Norrænum margmálamánuði sem stendur frá 21. febrúar, alþjóðlegum degi móðurmálsins, til 21. mars sem er alþjóðlegur dagur ljóðsins og einnig baráttudagur gegn rasisma.

Vegna samkomubannsins verður viðburðurinn, líkt og fyrr segir, á alnetinu og er því verið að leita að fólki sem vill lesa ljóð heima hjá sér, á öllum heimsins tungumálum, taka það upp á vídjó og deila með netheimi. Til að fá frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Hörpu Rún Kristjánsdóttur.