SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir12. mars 2020

Dætur um mæður

Það var vel mætt á fyrsta Rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða árið 2020 sem fram fór í gærkvöldi. Þar stigu á stokk Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir og Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir sagnfræðingur.

Sæunn fjallaði um bók sína Óstýriláta mamma mín og ég og Sigríður Kristín um Jakobínu: sögu skálds og konu en báðar bækurnar hafa vakið mikla athygli og „lifað jólabókaflóðið af" líkt og komist var að orði á þessu skemmtilega kvöldi.

Bækur Sæunnar og Sigríðar eiga það sammerkt að hverfast um mæður þeirra og fjölluðu dæturnar meðal annars um þær aðferðafræðilegu áskoranir sem felast í því að fjalla um efni sem stendur þeim svo nærri.

Hér fyrir neðan má lesa útdrátt höfunda úr erindum sínum:

 

 

 

Óstýriláta mamma mín og ég „Óstýriláta mamma mín lifði viðburðaríku lífi. Hún hafði auk þess skoðanir á flestu undir sólinni sem hún lá ekki á en í uppvextinum var ég hennar dyggasti hlustandi og stuðningsaðili. Að mömmu látinni fann ég ríka þörf fyrir að leita dýpri skilnings á dauða hennar og lífi. Aðferðin fólst í að rýna í minningar, tifinningar, frásagnir, sendibréf og kenningar sálgreiningar. Ritunin varð nærgöngul og velti upp ýmsum álitamálum sem ég mun leitast við að reifa í erindinu."

 

 

 

 

Jakobína: saga skálds og konu

„Í erindi mínu fjallar ég um tildrög verksins og hvernig ég nálgaðist viðfangsefnið móður mína. Sagnfræðingar glíma stundum við efasemdir um notkun persónulegra heimilda eins og sendibréfa. Sumir efast um gildi slíkra heimilda yfirleitt, en einnig setja menn siðferðilegt spurningarmerki við því að uppljóstra einkamálum fólks, jafnvel viðkvæmum málum, í ef til vill ekki svo fjarlægri fortíð. Hvað þá þegar umfjöllunarefnið er einhver nákomin, eins og í þessu tilviki, og bréfin ekki einu sinni aldargömul. En helgar tilgangurinn meðalið? Hvað hefði Jakobína sagt?"