
Sparibollinn er ný tegund verðlauna í bókmenntum. Verðlaunað er fyrir fegurstu ástarjátninguna. Ragna Sigurðardóttir hellti sparibollann fleytifullan af ást í bók sinni Vetrargulrótum, en sú bók var einmitt verðlaun í facebook-leik skáld.is í desember sl.
Í umsögn dómnefndar segir að í
Vetrargulrótum sé ekki bara ein góð ástarjátning heldur er bókin sjálf ein samfelld ástarjátning til lífsins, fegurðar og sköpunar og litapallettu jarðarinnar. Þar er að finna ást í ólíkum formum og að lestri loknum situr eitthvað eftir innra með manni, hún skilur eftir ást í hjartanu.
Í bókinni er líf og litir og hvatning til allra þeirra sem vilja skapa og skrifa, og eins og Ragna sagði sjálf við verðlaunaafhendinguna, þá er það ástin á bókunum sem knýr okkur áfram.
Sparibollinn var afhentur á málþingi Bókabæjanna í Tryggvaskála, sjá facebook-síðu viðburðarins, Ást í bók og bolla - ástarsögumálþing og afhending Sparibollans.
Til hamingju Ragna og ástin lifi!