SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir10. febrúar 2020

TEKIÐ TIL MÁLS EÐA SAGAN UM HANNES OG GRÉTU eftir Þórdísi Gísladóttur

Á Fögnuði skrifandi kvenna 2020 hélt Þórdís Gísladóttir skáldkona og þýðandi afar fróðlegt og skemmtilegt erindi um hausatalningu og kynjahalla þar sem m.a. komu við sögu systkinin Hannes og Gréta. Þórdís gaf Skáld.is góðfúslegt leyfi til að birta erindið:

 

Þegar Sigurlín Bjarney sendi mér línu fyrir nokkrum vikum og bað mig að taka til máls hérna í kvöld sagði ég umsvifalaust já, og hér stend ég og er þakklát fyrir að vera boðið að segja eitthvað við ykkur, allar skrifandi systur mínar.

Mér var sagt að ég mætti tala um hvað sem er, sem væri viðeigandi í bókmenntalegu kvennasamsæti, en Sigurlín Bjarney nefndi einnig að hana minnti að ég væri dugleg að telja hausa. Fyrst hún minntist á þetta í forbífarten ákvað ég að segja eitthvað um hausatalningar! Jú, það er satt að ég á það vissulega til að telja hausa og það tómstundagaman vekur svo sannarlega mismikinn fögnuð samborgaranna. Ég er ekki mikil stærðfræðimanneskja almennt, en mér finnst hausatalningar og prósentutölur oft varpa áhugaverðu ljósi á ýmislegt, til dæmis bókmenntir - öðru ljósi en bókmenntafræði, þetta tvennt finnst mér ágætt hvað með öðru.

 

Kynjaflatneskja

Mig grunar, ég er samt ekki viss, að Sigurlín Bjarney hafi verið að hugsa til síðustu hausatalningarinnar sem ég birti á opinberum vettvangi, hún átti sér stað skömmu fyrir liðin jól. Þá hlustaði ég á Víðsjá á þriðjudegi í bíl og tók eftir (vegna þess að ég er alltaf eitthvað að telja hausa) að engin kona talaði í þættinum, þetta var 100% karlaþáttur og ég heyrði karl tala við karl um bók eftir dáinn karl. Jæja, en nákvæmlega viku síðar, þar af leiðandi einnig á þriðjudegi, hlusta ég aftur á Víðsjá í línulegri dagskrá, þá hrærandi í potti í eldhúsinu mínu, og einnig þá var staðan 100% karlar. Þá ræddi annar umsjónarmanna við karlkyns höfund um bók hans um karlkyns Nóbelsverðlaunahöfund og svo fjallaði gagnrýnandi um bók eftir enn annan karlkyns höfund.

Ég gat ekki á mér setið og minntist á þennan kynjahalla á facebook-veggnum mínum, eða það var varla hægt að tala um kynjahalla - kynjaflatneskju mætti kannski kalla þetta. Og það stóð ekki á athugasemdum vegna þessarar gagnrýni, sem var auðvitað ekki raunveruleg gagnrýni bara einföld hausatalning. Annar umsjónarmanna þáttarins sagðist hlæja að mér og að RÚV væri með innbyggt módel einhvers staðar sem teldi viðmælendur og að þátturinn kæmi bara almennt vel út. Já, já, gott og vel, það gat auðvitað vel verið hugsaði ég, kannski eru bara eingöngu konur einhverja ákveðna daga í þættinum og stundum bara karlar og þá er allt jafnt og gott, það gæti svo sem alveg verið. Reyndar voru báðir umsjónarmenn þáttarins karlkyns þessa þriðjudaga þegar ég taldi hausa, það er alla vega ekki sérlega jafnt.

Síðan kom í ljós þegar málið var athugað betur að viðmælendur eru eitt en umfjöllunarefni annað. Ef ég skil þetta rétt þá virkar talningin þannig að þegar talað er um bók eftir karl í þættinum er bókin ekki talin, heldur mælandinn. Ég hef sjálf einmitt oft verið í útvarpinu að ræða um bækur eftir karla, þannig gæti ég sjálf alveg hafa stuðlað að því að karlkyns rithöfundum sé frekar gefinn tími. Hausatalningin er gölluð aðferðafræði. Þannig er það nú. Þetta módel á kannski ekkert sérlega vel við hjá RÚV nema mögulega á fréttastofunni. Samt finnst mér mikilvægt að telja hausa og ég mun halda því áfram.

 

Eru konur að taka yfir?

Síðastliðið haust þegar tilnefnt var til Augustverðlaunanna í Svíþjóð, en það eru verðlaun sem eru oft borin saman við Íslensku bókmenntaverðlaunin, birtist löng grein í sænsku dagblaði, Dagens Nyheter, þar sem því er haldið fram með ýmsum rökum að kvenfólk sé að taka yfir höfundastarfið. Konur eru í meirihluta höfunda og af þeim höfundum sem gáfu út sína fyrstu bók í Svíþjóð árið 2019 voru 72% konur.

Í ritlistarnámi eru konur líka í miklum meirihluta (og það á einnig við hér við Háskóla Íslands). Ritstörf eru sem sagt að verða kvennastarf í Svíþjóð. Af þeim bókum sem voru tilnefndar til sænsku Augustverðlaunanna voru konur í meirihluta tilnefndra: 15 af 21 titlum voru eftir konur eða 71% kvenkyns höfundar og 29 % karlkyns.

Berum þetta nú saman við íslensku bókmenntaverðlaunin sem er nýbúið að veita: Af tilnefndum höfundum voru 11 konur og 4 karlar, í prósentum talið; 73% konur og 27% karlar. Það er vert að taka fram að allar fimm tilnefndu bækurnar í flokki barna- og ungmennabóka voru eftir konur en í hinum flokkunum voru hlutföllinn 3/2 konum í vil (svo er auðvitað önnur hausatalningarsaga hvaða hausar fengu verðlaunin). Er þróunin á Íslandi að verða sú sama og í Svíþjóð? Eru konur að taka yfir? Ég skoðaði Bókatíðindi síðasta árs - og taldi hausa. Niðurstaðan bendir alls ekki til þess að konur séu að yfirtaka rithöfundastarfið á Íslandi. Óvísindaleg hraðtalning úr síðustu Bókatíðindum (ég sleppti því að telja Stellu Blómkvist, ég sleppti myndabókum fyrir minnstu börnin því oft eru höfundarnir þeirra margir eða jafnvel óljósir og ég sleppti því líka af eigin sérvisku að telja Gagn og gaman) en niðurstaða óvísindalegu hraðtalningarinnar er eftirfarandi þegar hausar voru taldir í Bókatíðindum síðasta árs:

- Barnabækur (svokölluð skáldverk, ungmennabækur og fræðibækur og bækur almenns eðlis fyrir börn): Kvenhöfundar 41 og karlhöfundar 33. Í barnabókaflokknum eru konur sem sagt í meirihluta höfunda en munurinn er ekki mikill. Konur: 55%. Karlar: 45%

- Íslensk skáldverk, ljóð og leikrit: Kvenhöfundar 52, Karlhöfundar 82 . Þarna eru karlmenn í miklum meirihluta höfunda, konur: 39% og karlar: 61%.

Þegar ég skellti öllum þessum titlum saman í eina summu fyrir hvort kyn er heildarhöfundahausatalningin þannig að konur voru 93 höfundanna og karlar 115. Það bendir sem sé alls ekki til þess að kvenfólk sé að taka yfir bókaskrif hérlendis, kvenhöfundar eru 45% og karlhöfundar 55%.

Nú er spurning hvort Halldór Laxness hafi haft rétt fyrir sér þegar hann sagði að Ísland væri alltaf í skökku perspektívi ár og síð, við værum alltaf tuttugu árum á eftir öllum úti í heimi. Vissulega erum við það stundum en heimurinn hefur minnkað umtalsvert síðan Halldór dró þessa ályktun og munurinn ætti ekki að þurfa að vera afgerandi. Kannski verða miklu fleiri rithöfundar á Íslandi úr röðum kvenna eftir tuttugu ár, hver veit?

 

Íslendingar kaupa barnabækur eftir karla

Mér finnst áhugavert í samhengi barnabókanna að skoða metsölutölurnar fyrir síðasta ár á heimasíðu Félags íslenskra bókaútgefenda. Á bóksölulistanum yfir árið 2019, sem hefur yfirskriftina Barnabækur - ljóð og skáldverk, kemur nefnilega fram að af tíu mest seldu barnabókum síðasta árs séu aðeins tvær eftir konu, og þær tvær bækur eru meira að segja báðar eftir sömu konuna, Birgittu Haukdal. Með tilliti til þess að konur eru fleiri en karlar í röðum barnabókahöfunda má velta þessu fyrir sér. Hvers vegna kaupum við miklu fleiri barnabækur eftir karlmenn?

 

Sagan um Hannes og Grétu

Nú er ég búin að vera mjög leiðinlegur ræðuhaldari og romsa upp tölum um hausatalningar. Ég ætla samt að halda áfram í hausunum, en núna ætla ég bara að telja tvo hausa, ég ætla nefnilega að segja ykkur sögu af tveimur systkinum, þeim Hannesi og Grétu.

Hannes Sigfússon var fæddur 1922 og dó 1997. Hann var eitt af atómskáldunum svokölluðu og virtur höfundur frá útgáfu fyrstu bókar, Dymbilviku. Eftir því sem ég kemst næst skrifaði hann átta ljóðabækur, tvær skáldsögur og tvær endurminningabækur. Hannes var líka mikilvirkur þýðandi og þýddi bæði ljóð og skáldsögur. Hann hlaut árið 1995 tilnefningu Íslendinga til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir ljóðabókina Kyrjálaheiði. Hannes bjó í áratugi í Noregi en flutti um síðir til Íslands og bjó síðustu æviárin hérlendis.

Systir Hannesar hét Lára Margrét Sigfúsdóttir en var alltaf kölluð Gréta og skrifaði undir nafninu Gréta Sigfúsdóttir. Hún var tólf árum eldri en Hannes, fædd 1910 og lést 1991, sex árum á undan bróður sínum. Gréta var á sínum tíma vel metinn rithöfundur eins og bróðirinn. Hún skrifaði, að því er ég best fæ séð, fjórar skáldsögur og smásagnasafn og hún þýddi einnig heilmikið af bókmenntaverkum. Gréta var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1966 fyrir bókina Bak við byrgða glugga og síðar fékk hún rithöfundaviðurkenningu Ríkisútvarpsins. Gréta bjó, eins og Hannes, áratugum saman í Noregi, en flutti einnig heim eftir langa Noregsdvöl og bjó í Reykjavík.

 

Systirin sem hvarf

Systkinin Hannes og Gréta koma oft upp í huga mér þegar ég hugsa um hvernig hægt er að skrifa konur út úr bókmenntasögunni í mjög bókstaflegum skilningi. Fyrir nokkrum árum tók ég þátt í gerð þáttaraðar um bókmenntir fyrir RÚV. Í einum þættinum var meðal annars fjallað um systkinin Hannes og Grétu og þeirra verk. Þegar ég var að skrifa handrit þáttarins ákvað ég, svona eins og vaninn er að gera, að fletta upp í Íslenskri bókmenntasögu, þessari hnausþykku sem kom út í fimm bindum á nokkrum árum, sú síðasta árið 2006. Í nafnalistanum aftast í fjórða bindi sést að nafn Hannesar Sigfússonar kemur fyrir á níu blaðsíðum og í fimmta og síðasta bindinu á heilum tuttugu og sjö blaðsíðum. Það þýðir að talað er um Hannes eða efni tengt honum á hátt í fjörutíu blaðsíðum í stærsta bókmenntafræðiverki Íslendinga.

Nafn systurinnar, sem, eins og Hannes, var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir hönd Íslands og fékk einnig viðurkenningu Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf, kemur hins vegar hvergi fyrir í nokkru einasta bindi af þessum bókum. Gréta Sigfúsdóttir er horfin úr sögu íslenskra bókmennta nokkrum árum eftir andlát sitt! Sem betur fer höfum við núna aðgang að timarit.is, í gömlum blöðum og tímaritum kemur Gréta Sigfúsdóttir víða við, nafn hennar kemur reyndar álíka oft fyrir í efni á timarit.is á árunum 1970-1979 og nafn bróður hennar. Hvernig sem á því stendur var hún ekki talin nægilega merkileg til að vera nefnd í bókmenntasögunni. Hvers vegna ætli standi á þessu hvarfi systurinnar? Þið megið svara því hver fyrir sig, en við skulum skála fyrir Grétu!

 

Tengt efni