• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Bergrún Íris Sævarsdóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin

Í gærkvöldi var tilkynnt hverjir hlutu Íslensku bókmenntaverðlaunin. Bergrún Íris Sævarsdóttir hreppti verðlaunin fyrir barna- og ungmennabókina Langelstur að eilífu og er það öðru sinni á skömmum tíma sem hún er verðlaunuð fyrir skrif sín því hún hlaut á dögunum Fjöruverðlaunin fyrir barna- og unglingabókina Kennarinn sem hvarf. Skáld.is óskar Bergrúnu Írisi innilega til hamingju!

Aðrir verðlaunahafar gærkvöldsins voru Sölvi Björn Sigurðsson sem hlaut verðlaunin fyrir skáldsöguna Seltu - Apókrýfa úr ævi landlæknis og Jón Viðar Jónsson fékk verðlaunin fyrir Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965, í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.

Þetta var í 31. skipti sem verðlaunin voru afhent og fór afhendingin fram á Bessastöðum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sá um að afhenda verðlaunin og í kjölfarið ávarpaði formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, Heiðar Ingi Svansson, samkomuna. Þá lék Jónas Sig. tónlist við athöfnina. Hér má fylgjast með viðburðinum og hlýða á þakkarræður verðlaunahafanna.

Í lokadómnefnd sátu Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Bergsteinn Sigurðsson, Knútur Hafsteinsson og Ingunn Ásdísardóttir, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar, skipuð af forseta Íslands. Verðlaunin eru ein milljón króna fyrir hvert verk og eru þau kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Hér fyrir neðan má sjá allar bækurnar sem voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2019.

Fagurbókmenntir

Bergþóra Snæbjörnsdóttir: Svínshöfuð

Bragi Ólafsson: Staða pundsins

Guðrún Eva Mínervudóttir: Aðferðir til að lifa af

Steinunn Sigurðardóttir: Dimmumót

Sölvi Björn Sigurðsson: Selta - Apókrýfa úr ævi landlæknis

Barna- og ungmennabækur Arndís Þórarinsdóttir: Nærbuxnanjósnararnir

Bergrún Íris Sævarsdóttir: Langelstur að eilífu

Hildur Knútsdóttir: Nornin

Lani Yamamoto: Egill spámaður

Margrét Tryggvadóttir: Kjarval – málarinn sem fór sínar eigin leiðir

Fræðibækur og rit almenns efnis

Jón Viðar Jónsson: Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925 - 1965

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir: Lífgrös og leyndir dómar – Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi

Páll Baldvin Baldvinsson: Síldarárin 1867-1969

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir: Jakobína – saga skálds og konu

Unnur Birna Karlsdóttir: Öræfahjörðin – Saga hreindýra á Íslandi

Myndin af Bergrúnu Írisi er fengin af vefsíðu Bókabeitunnar