Ágjöf í lífinu

Sigrún Sveinbjörnsdóttir

„Systu er mjög í mun að koma því á framfæri með ýmsum dæmum, úr eigin lífi og annarra, hversu mikilvæg öll umgerð barna er og brýn þörfin á leiðbeinandi uppeldi. Þeim mun betur sem uppalandi stendur sig í að leiðbeina barninu þeim mun líklegra er að barninu takist að leysa ágjafir lífsins á fullorðinsaldri. Það læri börnin sem fyrir þeim er haft“ segir Jóna Guðbjörg Torfadóttir í ritdómi sínum „Af spjörun og kyngervi“ þar sem hún fjallar um nýjustu bók Vigdísar Grímsdóttur.

Bókin inniheldur í senn endurminningar Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur og heimspekilegar hugleiðingar um barndóminn, bernskubrek, ástina og dauðann og er samvinnuverkefni Sigrúnar og Vigdísar sem skrásetur bernskuminningar Systu, eins og Sigrún er kölluð.

Vigdís er sérfræðingur í að segja sögur kvenna, vert er að minnast elsku Draumu (Sigríðar Halldórsdóttur) og Bíbíar Ólafsdóttur, en um þessar merku konur ritaði hún djúpar örlaga- og ævisögur.