• Ritstjórn

"Hárin risu í hnakkanum á mér"

Á síðu bókaútgáfunnar Partusar skrifar Álfrún Gunnlaugsdóttir rithöfundur um upplifun sína á skáldsögunni Svanafólkið eftir Kristín Ómarsdóttur


Ég las Svanafólkið um leið og ég fékk hana og gat ekki lagt hana frá mér. Þessi bók, sem er frumleg og uppfull af frjórri hugsun, hrærir vissulega upp í manni, enda varpar hún fram spurningum sem aðeins lesandanum er gert kleift að svara. Boltinn er skilinn eftir hjá honum. Þetta er (spé)spegilmynd af þeim tímum sem við lifum á, og þegar maður lokar bókinni stendur ekki steinn yfir steini. Öllu hefur verið snúið á hvolf, ekki aðeins „fjölskyldu, þjóð, líftegund,“ eins og stendur á bókarkápu, það eru stóru spurningarnar, heldur einnig litlu spurningarnar sem þeim fylgja.


Elísabet Eva reynir að rugga bátnum, en það kemst enginn upp með slíkt, allt er njörvað niður í fáránlegar formúlur, skráðar og óskráðar reglur. Mannskepnan er í reynd fangi. Þetta er þrúgandi og skelfilegur heimur, ómannlegur og grimmur og heldur öllum í greipum sér. Það góða við bókina er að hún leitar ekki orsaka, heldur stillir manni upp frammi fyrir orðnum hlut, við stöndum frammi fyrir afleiðingum.


Allt snýst um að sýnast, ekki vera. Allt er undir eftirliti, tæknidýrkunin í algleymingi. Ofbeldi er miskunnarlaust beitt, og þó að konur gegni öðru hlutverki en áður, er ekki betra þetta nýja. Mannleg samskipti eru sama marki brennd, menn segja það sem ætlast er til af þeim, eru í rullu og þar með þáttakendur í leikriti.


Þegar ég hitti fyrir guð sem felur sig í ljósakrónunni var mér allri lokið, hárin risu í hnakkanum á mér. Og svona mætti lengi telja. Bókin er skrifuð af öryggi höfundar sem veit hvað hann er að gera og senurnar skýrar, samtöl oft óborganleg.


Hvergi er útgönguleið nema í lesandanum sjálfum, sem verður að athuga sinn gang. Og það kalla ég afrek. Annað afrek er að segja frá ofbeldi á þann hátt, „elegant“ hátt, meðan maður les, að hryllingurinn verður ekki alveg eins augljós og þegar maður lýkur bókinni. Þá skellist hann framan í mann.


Álfrún Gunnlaugsdóttir