SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir16. desember 2019

UPPSKERUTÍMI?

Ef allt hefði verið með felldu í bókmenntamati á síðari hluta tuttugustu aldar ætti ljóðskáldið Þóra Jónsdóttir öruggan sess meðal íslenskra módernista, sjá má náin skyldleika með ljóðlist hennar og með ljóðlist Hannesar Péturssonar og Þorsteins frá Hamri, til að mynda. Þóra er ívið eldri en þeir, fædd árið 1925, verður 95 ára snemma á næsta ári og er enn að yrkja ljóðaakurinn. Þóra Jónsdóttir virðist hafa mætt of seint til leiks, fyrsta bók hennar, Í leit að tjaldstæði, kom út árið 1973 og hlaut í góða dóma. En fáir tóku eftir henni, henni var ekki hampað og verk hennar sjaldnast tekin með í umræðu um samtímaljóðlist eða tengd við verk annarra módernista.

Sú skoðun hefur verið viðruð við mig að þar sé helst um að kenna að hún var skilgreind sem „borgaralegt“ skáld; þ.e. tilheyrði ekki réttu kreðsunni og var því fórnarlamb þess pólitíska kaldastríðsbókmenntamats sem lengi réð ríkjum á Íslandi, auk þess að vera kona og of „gömul“ þegar fyrsta bók hennar kom út, 48 ára.

Síðan fyrsta bók Þóru Jónsdóttur kom út hefur hún sent frá sér 10 ljóðabækur til viðbótar auk tveggja safna ljóðrænna örsagna. Þá voru fyrstu níu ljóðabækur hennar gefnar út árið 2005 undir titlinum Landið í brjóstinu. Ættu allir ljóðaunnendur að eiga það verk í bókasafni sínu.

Nýverið sendi Þóra frá sér bókina Sólardansinn sem hefur að geyma ljóðrænar örsögur, minningabrot frá langri ævi. Á bókarkápu er mynd af málverki eftir höfundinn, því Þóra er einnig myndlistarkona, sköpunargáfa hennar er ekki einhöm. Örsögur bókarinnar eru yfir 60 talsins og eru fjölbreyttar af efni þótt margar séu, eins og áður sagði, byggðar á minningum frá langri ævi. Aðrar eru skyndimyndir frá ferðalögum eða göngutúrum, enn aðrar lýsingar á draumum eða hugarástandi. Þá eru nokkrir textanna svipmyndir af landslagi og umhverfi.

Sá sem þekkir ljóð Þóru Jónsdóttur greinir ýmsar efnislegar tengingar á milli margra ljóðanna og örsagnanna í Sólardansinum. Það á til að mynda við síðustu söguna sem tengist einu mest áberandi þema í ljóðum hennar, sem er leitin að samastað og sú tilfinning að vera á skökkum stað:

 

FLUTNINGAR

Hún var haldin þeirri áráttu að flytja burt frá þeim stöðum

sem hún dvaldi á. Samt vissi hún ekki hvert hún vildi fara.

Bara burt. Þegar kom að því að flytja var hún fljót að taka

saman búslóðina og koma sér fyrir á nýjum stað. Alltaf

sótti þó í sama horfið. Loks keypti fjölskyldan sér hús og

flutningum lauk. Húsið reis í jaðarbyggð og hægt um vik

að komast úr borginni og út í náttúruna. Það fannst henni

mikill kostur. Eigi að síður stóð hún oft við glugga eða

garðshlið og mændi út í bláinn með þrá í augum.

 

Það hlýtur að teljast aðdáunarvert að 95 ára gömul kona haldi ótrauð áfram að koma ljóðum sínum og sögum á framfæri, þrátt fyrir dræmar undirtektir í gegnum tíðina. Svo sannarlega er kominn tími til að Þóra Jónsdóttir eigi sína uppskerutíð, en eins og segir í einu albesta ljóði hennar "er til einskis að hlakka / fyrir þann / sem ekki heimtir / hjörð af fjalli" á haustin:

 

Hjörðin

 

Þegar haustar

er til einskis að hlakka

fyrir þann

sem ekki heimtir

hjörð af fjalli

 

Eigi gengur hann

í vetrarveðrum

við fé á heiðinni

gefur á garðann

og leitar uppi

týndan sauð

eða brýtur hjörð sinni vök

og sér fram á heyskort

á útmánuðum

 

Þegar fellirinn kemur

á hann enga skepnu að missa

 

 

Tengt efni