• Soffía Auður Birgisdóttir, ritdómur

Kærleiksboðskapur

Nýja ljóðabók Eyrúnar Óskar Jónsdóttur, Mamma, má ég segja þér? er eitt af mörgum innleggjum þessarar bókavertíðar í heitustu málefni samtíðarinnar, hamfarahlýnun af mannavöldum, mengun, ógnir stríðsreksturs og flóttamannavanda. Álíka áhyggjuefni hvíla greinilega þungt á mörgum skáldum, eins og vera ber; í skáldskapnum opinberast það sem brennur á fólki á magnaðri hátt en í öðrum miðlum. Af öðrum bókmenntaverkum ársins sem láta sig slík málefni varða má nefna verk af ólíku tagi, eins og Dimmumót Steinunnar Sigurðardóttur, Tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason og nýjustu bók Sigrúnar Eldjárn um ofurhetjuna Sigurfljóð, Sigurfljóð í grænum hvelli!

Óður til friðarins

Mamma, má ég segja þér? er, líkt og fyrri bækur Eyrúnar Óskar, viðamikil ljóðabók. Hún telur 76 blaðsíður og skiptist í þrjá hluta sem hver og einn hefur að geyma ljóð sem tengjast efnislega og mætti lýsa sem þremur ljóðabálkum. Fyrsti hlutinn kallast Stríð, friður og skæru-velgjörðir og er friðaróður. Hér er ort gegn stríðsrekstri, um hörmulegar afleiðingar stríðs og ofbeldis, um flóttafólk og drukkandi börn. Skáldið hvetur okkur til að stunda „skæru-velgjörðir“ í stað skæruhernaðar, því:

Við þurfum að þjálfa okkur fyrir frið.

Í stríðum fremur fólk illvirki.

Til að vinna frið hljótum við þá að þurfa

að fremja góðverk

að hæfa eins marga og við getum

með ást, vináttu og virðingu

að stunda skæru-velgjörðir

og skyndi-góðmennsku

Í þessum hluta eru mörg áhrifarík ljóð, svo sem „Stund milli stríða“ þar sem ung stúlka, hælisleitandi, birtist okkur í gervi Önnu Frank, og er send úr landi „á grundvelli Dyflinnarsamkomulagsins“:

Á Miðnesheiði

syngur lóan inn sumarið

vorboðinn ljúfi

nánast helgur í augum landans

á meðan enn eitt barn á flótta

er rekið út í dauðann.

Í lokaljóðlínum þessa hluta bendir ljóðmælandi á að „við sjáum ekki inn í framtíðina / við sköpum hana“, það er með öðrum orðum undir okkur sjálfum komið hvernig (og hvort) framtíðin verður.


Óður til náttúrunnar

Annar hluti bókarinnar hefur yfirskriftina Berum kærleikanum vitni og hér er á ferðinni óður til náttúrunnar. Ljóðmælandi vegsamar gróður, landslag, náttúrufyrirbæri á borð við regnboga og norðurljós, sem og lífverur af ýmsu tagi. Yfir þessum hluta er nokkuð hátíðlegur – jafnvel trúarlegur – blær; ljóðmálið er einfalt en upphafið, ljóðlínur stuttar og mikið um endurtekningar, sem ef til vill þjóna þeim tilgangi að vekja einhvers konar seið eða sefjun í sumum tilvikum. Ljóðið „Vatnaleið“ er skemmtileg lýsing á fjallgöngu og þeim erfiðleikum sem fjallgöngumaðurinn stendur frammi fyrir þegar þreytan fer að segja til sín og farangurinn að síga í. Lausnin við þeim vanda er óvænt, þótt einföld sé:

þá laust niður hugmynd

eða tilfinningu

eða vissu

að þetta væri ekki svona erfitt

ekki svona flókið

það eina sem ég þyrfti að gera

væri að færa annan fótinn

fram fyrir hinn

og færa síðan hinn fótinn

fram fyrir hann

þangað til

ég kæmist á leiðarenda

... og vísar langt út fyrir ramma ljóðsins: „Þannig hef ég sigrað öll mín fjöll“.

Óður til ástarinnar

Þriðji og síðasti hluti bókarinnar, Silfurbjöllur og regnbogar, er einn óslitinn ástaróður þar sem annars vegar er ort um erótíska ást milli tveggja fullorðinna einstaklinga og hins vegar um ástina á milli móður og barns. Skemmtileg er lýsing á ástarfundi þeirra fyrrnefndu utanhúss í dögginni – og ætti skilið tilnefningu til Rauðu hrafnsfjaðrarinnar sem veitt er fyrir forvitnislegustu kynlífslýsingu í bókmenntum hvers árs. Hér er brot úr lengri lýsingu:

Þegar þú horfir

svona á mig

snögghitnar

niðri við suðurströndina

hitinn leitar upp

og dregur með sér

kaldara loft