SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 2. nóvember 2019

Haustlaufin yfir mér

Mislæg gatnamót, fimmta ljóðabók Þórdísar Gísladóttur er komin úr hjá Benedikt bókaforlagi. Þórdís var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir ljóðbókina Velúr sem kom út árið 2014. Í henni er að finna ljóð dagsins Haustlaufin yfir mér, en þar bregður Þórdís upp einfaldri en kröftugri mynd af því hvernig hægt er að tengjast minningum sínum, íhuga þær og endurskoða á yfirlætislausan hátt. Hugsanlega sem mótvægi við hversdaginn sem eyðist upp á samfélagsmiðlum.

Haustlaufin yfir mér ljóð

 

Haustlaufin yfir mér

Víst væri gott að geta

safnað saman völdum ævistundum

og örfáum fölskum minningum

líkt og haustlaufum

sem leikskólabörn tína úti á túni.

Þurrkað þær og slétt

límt á stór pappaspjöld

hengt á vegg

horft á þær með öðru auganu eða báðum

meðan skammdegið umvefur bæinn

og fyrir löngu orðið leiðigjarnt

að laumast með Facebook-veggjum. Velúr (2014)

Þórdís hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2010 fyrir sitt fyrsta verk Leyndarmál annara. Hún hefur síðan hlotið fjölda viðurkenninga, meðal annars þrjár tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þórdís hefur þýtt fjölda bóka, sent frá sér ljóðabækur, barnabækur og skáldsögu.

 

Ása Jóhanns