Hlekkur í ólánskeðju

Kveðið við mann

 

„Ekki get ég gert að því,

gremju til þó finni,

því stærsti hlekkur ert þú í

ólánskeðju minni.“

 

(19. júní 1959)

 

Þórhildur Sveinsdóttir sem orti þessa vísu fæddist 16. mars 1909 á Hóli í Svartárdal, Austur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hennar voru hjónin Sveinn Jónsson og Vilborg Ólafsdóttir og forfeðurnir voru margir orðlagðir ljóðasmiðir. Þórhildur sendi frá sér tvær ljóðabækur, Í gær og í dag (1968) og Sól rann í hlíð, 1982 og er sú bók aukin og endurbætt frá þeirri fyrri. Æsku- og uppvaxtarárin liðu við venjuleg sveitastörf, „baðstofan var skólastofan, þar var lesið, kveðnar rímur, sagðar sögur, sungið og brugðið á leik og þar naut hagmælskan sín vel“ segir um hana í minningargrein í Morgunblaðinu.

 

Þórhildur er 294. skáldkonan sem bætist í skáldatalið frá upphafi hins góða framtaks hóps áhugasamra bókmenntafræðinga.

 

Skáldkonan orti lipurlega, m.a. þessa heilræðavísu: 

 

„Ef þig vélar váleg frétt

vinsaðu úr af snilli.

Sumt er logið, sumt er rétt

og sumt er þar á milli.“

 

(Húnavaka, 1990)

 

Þórhildur lést í Reykjavík, 7. apríl 1990. 

 

„Enginn frestur, ekkert dok,

er því ráð að lenda.

Nú eru komin leiðarlok,

langferðin á enda.“

(ÞS)

 

Engin mynd fannst af Þórhildi við vinnslu greinarinnar.

 Meira um skáldkonuna, t.d.: https://www.huni.is/index.php?cid=13825&template=print.php.

 

 

Facebook
Líka við
Please reload

Please reload

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

  • Black Facebook Icon
  • Black Twitter Icon
  • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband