SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 4. september 2019

HROLLUR OG HEIMILISOFBELDI - Umsagnir um bækur Auðar Ingvars

 

Auður Ingvars bætist í skáldatalið í dag. Af því tilefni er safnað saman brotum úr umsögnum um bækur hennar.

Tveir gagnrýnendur fjölluðu um Mefistó á meðal vor, furðuskáldsaga (1990), annar eyddi plássinu aðallega í að endursegja söguþráðinn, hinn telur að um þessa bók gildi enginn almennur mælikvarði. Þorsteinn Thorarensen tekur einnig eftir sérstöðu bókarinnar í grein sem hann skrifar - reyndar um annað efni. Einn ritdómur birtist um Hvenær kemur nýr dagur, örlagasaga fólks (1991), eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur sem fagnar þema bókarinnar, stöðu kvenna. Engin gagnrýni fannst um Lúsamurlinga, ljóðabók Auðar frá 1995.

 

Skammarverðlaun

„En Mefistó er furðuleg bók , samin af verkakonu í svo undra liprum og léttilega skrifuðum tóni og fljúgand i hugmyndaflugi. Sjálfum finnst mér hún ógeðfelld en ég viðurkenni að hún sprettur með furðulegum hætti upp úr samfélagi okkar og það eru í henni bráðgóðir kaflar...“ segir Þorsteinn Thorarensen í framhjáhlaupi í undarlegri grein í Morgunblaðinu þar sem hann hampar bók eftir Þorvarð Helgason sem Súsanna Svavarsdóttir hafði áður gagnrýnt harkalega.

Í ritdómi eftir Árna Blandon var lagt til að bókin fengi skammarverðlaun vegna lélegs prófarkarlestrar en villurnar voru sagðar tæplega 100 talsins.

Hryllingssaga?

Erlendur Jónsson segir m.a. um Mefistó í ritdómi: „Hryllingssaga? Það er nú svo. Ekki fór neinn hrollur um undirritaðan. Hins vegar vakti margur kaflinn óvæntan - og kannski óviðurkvæmilegan hlátur: Hvílíkt og annað eins sem manneskjunni getur dottið í hug að setja saman! Þegar öllu er á botninn hvolft sýnist þetta vera langtum of yfirborðskennt til að maður verði gagntekinn. Í fréttatilkynningu segir að höfundurinn sé »miðaldra alþýðukona«. Málfarið á sögunni er þó fremur bóklegt en alþýðlegt. Á það jafnt við um megintextann og samtöl þau sem lögð eru í munn söguhetjunum, yngri sem eldri. Í upphafi virðist stíllinn vera fremur viðvaningslegur. En annaðhvort er að maður venst honum eða skáldkonunni vex ásmegin eftir því sem á söguna líður, en þetta mun vera hennar fyrsta bók. Reyndar er ekkert einsdæmi að höfundar hiti sig þannig upp, einkum ef honum er mikið niðri fyrir. Er víst hvergi út í hött að kalla þetta vímustíl. Auðvitað lægi saga þessi vel við höggi ef maður vildi afgreiða hana þannig. En málið er varla svo einfalt. Í raun og veru gildir hér enginn almennur mælikvarði. Bókin liggur einhvern veginn fyrir utan mörk venjulegrar gagnrýni.“

Aumingi og dusilkona

Jóhanna Kristjónsdóttir fjallar um Hvenær kemur nýr dagur, seinni skáldsögu Auðar í Morgunblaðinu 17. desember 1991: „Í skáldsögu Auðar Ingvars er tekið á einum anga af stóru vandamáli, ofbeldi á heimilinu. Þar sem eiginmaðurinn beitir konu sína Klöru ofbeldi, heldur henni næstum því gangandi, ef svo má orða það, á angist og skelfingu. Verður hún barin þegar hann kemur heim næst? Og þó Auður kafi ekki eftir því dýpra - leiti ekkí svara við spurningunni um af hverju Klara sættir sig við ofbeldið - á sagan rétt á sér þó ekki væri nema fyrir það að fjalla um þennan þátt. Sem er ekki „inni" því kona sem lætur misþyrma sér hlýtur að eiga sök á því sjálf. Hún hlýtur að vera hálfgerður aumingi og dusilkona að láta þetta yfir sig ganga.

Það vantar ekki kraftinn í söguna, en þær hliðstæður sem Auður stillir upp, Klara annars vegar og Halla, hin sterka, hins vegar verða ekki nægilega tengdar vegna þess að höfundi er hreinlega of mikið niðri fyrir. Hún vandar ekki fléttuna nóg. Sinnir stundum of mikið um aukaatriði sem ekki verður séð að skipti máli, ég nefni undirbúning hátíðahaldanna í þorpinu. Kannski vakir fyrir Auði að undirbúa slysið sem verður en það gengur ekki upp hjá henni. Höfundur á auðvelt með að skrifa samtöl og hefur léttan frásagnarmáta. En það vantar samt meiri fylljngu í söguuppbygginguna og persónan Halla verður ekki nógu trúverðug þó saga hennar einnar og sér væri efni í bók. Það er greinilegt að Auður getur sagt sögu en hún þarf að vanda betur til verka, hafa á hreinu hvað það er sem hún vill segja og gæta að því að fara ekki út um víðan völl með söguna.“

Auður sendi frá sér þessar þrjár bækur á fimm ára tímabili og síðan ekki söguna meir.

 

 

Tengt efni