• Soffía Auður Birgisdóttir

'Skemmtiskokk' Sigurbjargar

Sigurbjörg Þrastardóttir er afmælisbarn dagsins og skáld.is óskar henni til hamingju með daginn. Þegar nafn hennar er slegið inn á leitarvélar veraldarvefsins kemur ýmislegt skemmtilegt í ljós:


Sigurbjörg Þrastardóttir kom fyrst fram á sjónarsviðið, 15 ára gömul, árið 1989 þegar hún var einn af sigurvegurunum í ritgerðarsamkeppni Verzlunarbankans fyrir 9. bekk grunnskóla og hlaut heildarsafn Íslendingasagnanna með nútímastafsetningu í verðlaun. Ári síðar, 1990, nú orðin framhaldsskólastúlka, hlaut hún aftur verðlaun, í ritgerðarsamkeppni Norræna félagsins og í þetta sinn var farmiði til einhvers Norðurlandanna í verðlaun, auk peningaupphæðar í farareyri. Og ekki er allt upp talið að þessum undanfara að rithöfundaferli Sigurbjargar því við útskrift úr Fjölbrautarskóla Vesturlands, fjórum árum síðar, tekur hún við fjölda verðlauna og flytur útskriftarræðu fyrir hönd nýstúdenta. Eftir háskólapróf í bókmenntafræði, starfaði Sigurbjörg sem blaðamaður á Mbl um nokkra ára skeið en 1999 sendi hún frá sér sína fyrstu ljóðabók.


Það er því ljóst að rætur skrifa Sigurbjargar liggja langt aftur í – kannski alveg til barnæskunnar og þannig er það yfirleitt um bestu skáldin þau skrifa af þörf og í pistli sem Sigurbjörg skrifar á bókmenntavef Reykjavíkurborgar lýsir hún einmitt slíkri þörf:


Geng stundum upp fyrir og sæki ljóð í heiðarlindina ber þau heim í tveimur skjólum á trjábol sem ég reiði yfir herðarnar sný mér aftur að húsverkum um stund en jafnskjótt og þurrkurinn verður óbærilegur gríp ég gamla ausu sem amma mín lét mér eftir og eys yfir mig orðaflaumi úr skjólunum.

Þörfin er líkamleg og í útleggingu sinni óskar hún þess að „heiðarlindin tæmist aldrei“. Í sama pistli er að finna frásögn af því þegar Sigurbjörg ákvað að taka þátt í skemmtiskokki fyrir opnun Hvalfjarðargangana í júlí 1998 án þess að vera í sérstaklega góðu formi, án þess að gera sér grein fyrir að göngin væru 5,8 km löng. Hún var komin með hlaupasting eftir 1,5 kílómetra og við það að gefast upp:


Ég herti upp hugann og tók aftur til við að hlaupa, andaði eins hægt og hljótt og mér var frekast unnt og virti fyrir mér útsýnið, ljósin, vifturnar, hálfmanngerða veggina, veginn, kantana, neyðarsímana. Margir höfðu dregist aftur úr, en margir voru líka komnir úr augsýn fyrir framan mig. Og allt í einu fannst mér aftur gaman. Þetta var í raun stórkostlegt ævintýri; að fá að vera ein með hugsunum mínum í iðrum jarðar og hafa allan heimsins tíma til ráðstöfunar.


Ég gekk og valhoppaði á víxl, tók snarpa spretti og setti undir mig svitastorkið höfuðið þegar brekkan norðan megin tók við. Hún var ótrúlega lúmsk. Ekkert tiltakanlega brött, en löööng. Um tíma missti ég aftur trúna, hélt ég myndi aldrei ná í mark, fannst að ég myndi næsta örugglega láta lífið þarna einhvers staðar úti í kanti.


En ég var komin of langt til þess að hætta við og þetta var líka erfiði sem borgaði sig, því við marklínuna fékk ég medalíu um hálsinn (eins og reyndar allir hinir) og var svo glöð með þetta litla ævintýri að strengir komandi daga voru ekkert nema ljúf áminning um lítinn en mikilvægan áfanga í lífinu.


Eftir á að hyggja var alveg nákvæmlega eins reynsla að skrifa fyrstu skáldsöguna. Hún hófst sem hugdetta og ef ég hefði haft hugmynd um þá löngu, og á stundum rökkvuðu, leið sem ég mátti leggja að baki til að ná lokapunkti, hefði ég kannski aldrei farið af stað. En það var gaman að vera landkönnuður, gaman að mæðast, svitna, jafna hraðann, stilla sig um að grípa í neyðarsímann. Þetta var reynsla sem herti, kenndi – og skemmti.

Þetta er skemmtileg lýsing sem sýnir, ásamt áðurnefndu ljóði, að skáldskapurinn sprettur af innri þörf og til að iðka hann af alvöru þarf meira þol en maður býr í raun yfir og aðeins þeir sem ekki gefast upp komast á áfangastað og uppskera laun erfiðis sína. Og afrakstur erfiðisins er umtalsverður í tilviki Sigurbjargar Þrastardóttur: Ljóðabækur, skáldsögur og leikverk – og verðlaun og tilnefningar til enn fleiri verðlauna – og enn er skáldið ungt og líklegt til áframhaldandi afreka.


Myndin af Sigurbjörgu er tekin af vef Forlagsins.