SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir20. ágúst 2019

Margt spennandi á Menningarnótt

Nú styttist mjög í hina árlegu Menningarnótt en hún verður næstkomandi laugardag, 24. ágúst. Líkt og fyrri ár er boðið upp á þéttskipaða dagskrá af alls konar menningartengdum viðburðum. Það er býsna margt í boði fyrir bókhneigða og þar láta konur nokkuð að sér kveða. Hér eru tínd til nokkur dæmi um áhugaverða viðburði þar sem skáldkonur koma við sögu en fulla dagskrá Menningarnætur má nálgast hér.

Bókmenntahátíð grasrótarinnar – Gröndalshús, Fischersundi kl. 13-23

Upplestur kl. 17-19: Þórdís Helgadóttir, Ólöf Sverrisdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir, Jónína Óskardóttir, Þóra Hjörleifsdóttir, Sigrún Björnsdóttir og Díana Sjöfn Jóhannsdóttir. Einnig lesa Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, Brynjólfur, Þorsteinsson, Elías Knörr og Brynjar Jóhannesson.

Upplestur kl. 20-22: Júlía Margrét Einarsdóttir, Brynja Hjálmsdóttir, Sjöfn Hauksdóttir, Fríða Ísberg, Rebekka Sif Stefánsdóttir og Rut Guðnadóttir. Einnig lesa Björn Halldórsson, Einar Kári Jóhannsson, Ægir Þór og Tómas Ævar Ólafsson.

Á staðnum verður bókamarkaður og verða þar til sölu verk nýrra höfunda, sjálfsútgáfur, bókamenntatímarit og bækur grasrótarforlaga.

Upplestrarmaraþon á ljóðum Huldu - Borgarbókasafnið Grófinni kl. 13-20

Boðið verður upp á átta tíma myndbandsverk af upplestri Hörpu Dísar Hákonardóttur og Hjördísar Grétu Guðmundsdóttur á ljóðum Huldu skáldkonu.

Kvæðakonan góða – Bríetartorg, kl. 13-13:30, Ingibjörg við Alþingi 13:30-14, Listasafn Reykjavíkur Kjarvalsstöðum 15:30-16:30 og Listasafn Reykjavíkur Hafnarhúsi 17:30-18:30.

Kvæðakonan góða er hópur kvenna í Reykjavík sem kveður lausavísur og rímur. Vísurnar eru eftir eða um konur og eru kveðnar við stemmur (rímnalög) sem eru ýmist gamlar eða frumsamdar.

Ljóðasjoppa með Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Fríðu Ísberg og Kött Grá Pjé – Icelandair Hotel Reykjavík Marina, Mýrargata 2, kl. 15-18

Skáldkonurnar Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Fríða Ísberg munu sitja við ritvélar, ásamt Kött Grá Pjé (Atla Sigurþórssyni), og semja ljóð eftir pöntun fyrir gesti og gangandi þeim að kostnaðarlausu.

Ljóð á leið í bæinn – Hólavallagarður, gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu, við klukknaportið í miðju kirkjugarðsins, kl. 15-17

Fjölbreyttur hópur skálda, þekktra sem óþekktra, flytja ljóð sín í Hóllavallagarði. Nýtt skáld birtist á fimmtán mínútna fresti.

Útgáfuhóf: Blesa og leitin að grænna grasi – Eymundsson Skólavörðustíg 11, kl. 17-18

Blesa og leitin að grænna grasi er fyndin og skemmtileg saga sem kynnir unga lesendur fyrir íslenskri náttúru og dýraríki hennar ásamt því að velta upp spurningunni hvort grasið sé alltaf grænna hinum megin. Sagan er eftir Láru Garðarsdóttur sem einnig teiknar myndirnar í bókinni. Bókin kom einnig út á ensku.

Serimónía: Ljóð og afrískur trommusláttur – Tryggvagata 17, 3. hæð, kl. 17-17:35

Eyrún Ósk Jónsdóttir flytur ljóð við undirleik Akeem Richard sem spilar á afrískar trommur. Verkið tekur um 30 mínútur í flutningi.