SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 7. ágúst 2019

Huldukona í ljóðlistinni

Fyrir sextíu og einu ári eða árið 1958 sendi verkakonan og skáldkona Arnfríður Jónatansdóttir frá sér sín fyrstu og einu ljóðabók, Þröskuldur hússins er þjöl. Bókin vakti ekki sérstaka athygli enda nóg af forfrömuðum strákum á skáldabekk með nýjar aðferðir og fersk umfjöllunarefni frá útlöndum í ljóðlistinni á þessum tíma svo bók Arnfríðar hlaut að falla í skuggann. Nú hefur bók Arnfríðar verið endurútgefin og þar með myndin af upphafi módernískrar ljóðlistar á Íslandi orðið fyllri. Hún er nefnilega huldukona í módernískri ljóðlist á Íslandi.

Í hinum frábæra útvarpsþætti Orð um bækur, 3. ágúst síðastliðinn, var fjallað um Arnfríði. Árið 1989 birti Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur áhugaverða grein um hana sem hún nefndi „Brúarsmiður – Atómskáld – Módernisti“ í Ljóðaárbók. Og í sumar sem nú er brátt á enda gaf Una útgáfuhús þessa einu ljóðabók Arnfríðar Jónatansdóttur út með formála eftir Soffíu Auði.

Hér má hlusta á þáttinn.