SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir28. júlí 2019

Drápa í Wilton's Music Hall

Þann 9. september næstkomandi flytur Gerður Kristný ljóðaflokkinn Drápu í Wilton's Music Hall í London. Undir lestrinum mun óma tónlist í flutningi ALDAorchestra sem Helgi Rafn Ingólfsson samdi sérstaklega fyrir þetta tilefni.

Ljóðaflokkurinn Drápa

Drápa kom út árið 2014 og fjallar um morðmál frá árinu 1988 en þá drap Bragi Ólafsson eiginkonu sína, Grétu Birgisdóttur, einungis 26 ára gamla. Þegar Bragi losnaði úr fangelsi, tíu árum síðar, tók Gerður Kristný við hann viðtal. Hann bjó enn í sama húsi og þar sem hann framdi morðið og þar var hann sjálfur myrtur ekki löngu síðar þegar honum sinnaðist við mann sem ætlaði að kaupa af honum eiturlyf. Í kjölfarið nálgaðist Gerður Kristný dómskjölin og hóf að yrkja Drápu en ljóðmælandann fann hún í norskum dómskjölum frá 17. öld, líkt og hún greinir frá í blaðaviðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur.

Gerður Kristný gerir það gott í útlöndum

Áður hefur verið samin tónsmíð við ljóðabálk eftir Gerði Kristnýju en söguljóðið Blóðhófnir var sveipað tónum og flutt í tónleikahöllinni í Gautaborg, síðastliðinn maí. Í London verður það hins vegar skáldkonan sjálf sem flytur Drápu fyrir áhorfendur. Viðburðurinn er á vegum Poet in the City og er tileinkaður öllum þeim konum sem hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi nákominna. Skáld.is óskar Gerði Kristnýju innilega til hamingju með þessa upphefð.