Vínblá stemning

Ljóðabókin Vínbláar varir kom út hjá bókaforlaginu Skriðu síðastliðinn mars og er hún önnur ljóðabók Sigurbjargar Friðriksdóttur en hún sendi frá sér ljóðabókina Gáttatif árið 2016. Vínbláar varir telur 69 síður og geymir 29 ljóð sem öll eru býsna stutt og hnitmiðuð, utan eitt sem teygir sig yfir nokkrar síður. Sigurbjörg segir ljóðin ekki vera persónuleg og engu líkara en að ort sé í gegnum hana. Ljóðin hafa þó mörg hver yfirbragð persónulegrar reynslu og einlægni, óháð því hver ljóðmælandinn er.  

Nokkur ljóðanna geyma býsna áhrifamiklar myndir af ofbeldisfullu sambandi. Titill bókar og upphafsljóð slá þann tón strax í upphafi:  

 

Í aðsigi

 

undir augnlokum

blóðhlaupin hvíta

 

óboðinn gestur

hreiðrar um sig

í húsinu

 

rauðvínsleginn

himinn

 

hvolfist yfir (7)

 

Þá liggur ljóðmælandinn með vínrauðu varirnar ekki í djúpum dali og lætur þar hugann reika, líkt og ljóðmælandi Ferðaloka Jónasar Hallgrímssonar, heldur „á köldu gólfinu / úfin grá og guggin“ (9) í hálfhrundu húsi með vatnsblandaðan landa innan seilingar. Síðan kemur drykkjufélaginn með flösku „í haustlitunum“ og saman skála þau „fyrir myrkrinu / í myrkrinu“ (21).

 

Sambandið er markað af ósætti og erjum og í stað ástar er það dauðinn sem „umvefur okkur / í grasinu“ (27). Sjúkt sambandið virðist einkennast af stjórnun og meðvirkni og það fylgja því mikil átök að losna úr því:

 

 

Spunavefur

 

björt augu þín  

daðrandi tunga

mjúkur faðmur

 

gljáfægðir draumar

 

myrk augu þín

niðrandi tunga

harður hnefi

 

blóðrispaðar martraðir (25)

 

 

 Aðför

 

þegar ég opnaði

dyrnar

 

óraði mig ekki

fyrir því

 

að einn daginn

 

þyrfti ég

að skella þeim

á hæla þér

 

af öllum

lífs og sálar

kröftum (39)

 

 

Er á líður ljóðabókina verður dauðinn fyrirferðameiri, það er farið með þakkargjörð, sem geymir minningarorð og kveðju (55-61), og bróðir, sem ljóðmælandi aldrei átti, er kvaddur (63). Að lokum má sjá nokkurs konar óð til náttúrunnar eða jafnvel afturhvarf:

 

 

Bergnumin

 

tónar

steinhörpunnar

laða þig áfram

að miðju hringsins

 

líkt og nautið

tilbúin að hefja leikinn

 

lýtur höfði

 

yfirfull áhorfendastúkan

steinrunnin

 

þegar hljómtærir

tónarnir

sprengja

hjarta þitt (69)

 

 

Í þessu lokaljóði er dregin upp nokkuð rómantísk mynd af náttúrunni sem heillar til sín manneskjuna svo að þau renna saman í eitt. Hjartað springur og það fjölgar því í steinrunninni áhorfendastúkunni þaðan sem hægt er að fylgjast bergnumin með næstu leikum. Dauðinn hefur vikið fyrir, eða felst í, alltumlykjandi náttúrunni með sitt sjónarspil. Þetta er býsna myndrænn endir á ljóðabók sem er vís með að snerta við ýmsum.

 

 

Facebook
Líka við
Please reload

Please reload

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

  • Black Facebook Icon
  • Black Twitter Icon
  • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband