SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir27. júní 2019

Vel sótt ljóðadagskrá til heiðurs Arnfríði Jónatansdóttur

Arnfríður Jónatansdóttir- Þröskuldur hússins er þjöl

Það var fullt út að dyrum á ljóðadagskrá, í Mengi sem haldin var miðvikudagskvöldið 26.júní 2019, til heiðurs Arnfríði Jónatansdóttur. Tilefnið var nýleg endurútgáfa á einu ljóðabók hennar, Þröskuldur hússins er þjöl, hjá Unu útgáfuhúsi.

Nýjungar í ljóðagerð

Arnfríður fékkst við nýjungar í ljóðagerð á sama tíma og hin svonefndu atómskáld og hefur verið talin fyrsti kvenkyns módernistinn á Íslandi. Hún hefur þó aldrei verið talin með í hópi atómskáldanna og því síður hefur nafni hennar brugðið fyrir í umræðu um formbyltingarskáldin. Una útgáfuhús réðst í endurútgáfu ljóðabókarinnar í von um að skáldskapur Arnfríðar yrði endurmetinn og að skáldkonan fengi þann sess sem henni bæri í bókmenntasögunni. Í bókinni má einnig finna viðtal Þórunnar Hrefnu Sigurjónsdóttur við Arnfríði og inngangsorð eftir Soffíu Auði Birgisdóttur.

F.v. Vilborg Dagbjartsdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir, Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Fríða Ísberg, Brynja Hjálmsdóttir og Gerður Kristný.

Skáldkonur lásu upp Ljóðadagskráin hófst með stuttu spjalli við Vilborgu Dagbjartsdóttur sem þekkti Arnfríði vel. Vilborg las einnig ljóð eftir vinkonu sína. Þá stigu fimm aðrar skáldkonur á stokk og fluttu bæði ljóð Arnfríðar og sín eigin. Þetta voru: Linda Vilhjálmsdóttir, Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Fríða Ísberg, Brynja Hjálmsdóttir og Gerður Kristný. Finna má frekari upplýsingar um þær allar í Skáldatalinu utan Brynju en hennar fyrsta ljóðabók kemur út í haust hjá Unu útgáfuhúsi.