• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Vökukonan í Hólavallagarði


Ljóðabókin Vökukonan í Hólavallagarði er fyrsta bók Guðrúnar Rannveigar Stefánsdóttur en hún kom út í liðinni viku. Bókin geymir ljóð um vökukonu Hólavallagarðs, Guðrúnu Oddsdóttur sem lést árið 1838 og var grafin fyrst allra í garðinum. Hlutverk hennar hefur verið að taka á móti öllum þeim sálum sem þangað hafa komið á eftir henni (og hlutverki hennar er ekki lokið ennþá).

Ljóðabálkurinn er þrískiptur. Sá fyrsti heitir Vökuljóð þar sem Guðrún lýsir upphafi vökunnar, miðjukaflinn heitir Lífið í garðinum en þar koma fram raddir annarra kvenna sem hvíla í garðinum og að lokum er kafli sem heitir Guðrún og næturvaktin þar sem Guðrún talar áfram um næturvaktina endalausu. Í bókinni má einnig finna sögulegan formála um Hólavallagarð og eftirmála um ævi Guðrúnar Oddsdóttur. Bæði formálann og eftirmálann skrifar Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur.

Hér má lesa eitt ljóðanna úr bókinni:

Ótal grænir litir

Í garði þessum grafin fyrst allra

Ég strýk höndunum

yfir smaragðsgrænan kjólinn

kjóllinn er úr þungu flaueli

strýkst við jörðina þegar ég fer um

grænn er róandi litur var mér sagt

hefur sefandi áhrif á sálirnar

Hér eru margir grænir litir

dökkgrænn mjúkur mosinn

umlykur allt

feyskna trjáboli

gróna steina

ryðgaða járnrimla

spanskgræna koparstafi

fagurgræn lauf

iðjagrænt grasið

ljósgræn birtan

sægræn þétt dimman

bylgjast fyrir ofan allt

byrgir mér sýn

Í garði þessum mun ég leggjast til hvílu síðust allra

Í tilefni útgáfunnar verður boðið upp á göngu og leiðsögn um Hólavallagarð næstkomandi fimmtudagskvöld, 27. júní, kl. 20. Gengið verður frá þjónustuhúsinu við Ljósvallagötu. Rakin verður saga vökukonunnar og ljóðin tengd við ýmsa staði í garðinum. Leiðsögumaður er Heimir Björn Janusarson ásamt þeim Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur og Sólveigu Ólafsdóttur. Nálgast má frekari upplýsingar um viðburðinn hér.