SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir20. júní 2019

Fyrsta ljóðabók Hildar Eirar Bolladóttur

Ljóðabókin Líkn kom út nú á dögunum en það er fyrsta ljóðabók Hildar Eirar Bolladóttur. Þetta er önnur bók Hildar Eirar en árið 2016 sendi hún frá sér bókina Hugrekki - sögu af kvíða sem hlaut lofsamlega dóma og var tilnefnd til Fjöruverðlauna.

Að sögn Hildar Eirar fjallar ljóðabókin Líkn öðru fremur um dauðann og hvernig við mætum honum með tilfinningum okkar og atferli. Sum ljóðin eru reyndar gamlar æskumyndir sem hafa fylgt henni alla tíð og svo sterkt að hún getur enn fundið lykt og bragð af deginum eða stundinni sem þær áttu sér stað. Hildur Eir segir að þau ljóð skrifuðu sig nánast sjálf, þau séu eiginlega bara eins og gamlar ljósmyndir í nokkrum orðum.

Hildur Eir segir einnig svo frá að þar sem hún hafi alist upp á kirkjustað og faðir hennar var prestur hafi dauðinn verið henni nálægur frá fyrstu minningu. Henni hafi fundist svo forvitnilegt að fylgjast með atferli fólks í kringum dauðann og öllum þeim siðum og hefðum sem skapast í kringum hann en líka öllum vandræðaganginum og hátíðleikanum sem verður til vegna þess að okkur finnst óþægilegt að lifa í sátt við dauðann jafnvel þótt hann sé það eina sem ekkert okkar getur flúið. Ljóðin eru þess vegna bæði kómísk en líka hughraust af því að í gegnum starf hennar sem prestur hafi hún lært að umgangast dauðann af fumleysi en líka auðvitað djúpri alvöru 

Hér má lesa eitt ljóðanna úr ljóðabókinni Líkn:

Yfir steinhlaðinn vegg
berst þögnin,
saga
þjáningar
dauða
og upprisu.
Í þessum garði
fá allir
merkta gröf
klædda greni
og furu,
gæfumenn
og ógæfumenn
hvíla í móðurskauti
moldar