• Soffía Auður Birgisdóttir

Hættulegir heilar


Um leið og við óskum öllum konum til hamingju með kvenréttindadaginn birtum við hér samantekt á ljóðum nokkurra íslenskra skáldkvenna sem hæfa tilefninu.

Eitt karlmannsrif er ekki gott stöff í heila konu.

Eftir að Guð skapaði konuna beint

varð hún betri.

Síðan er ekkert fall til

bara sakleysi

þrátt fyrir hættulegan heilann.

Þannig yrkir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, rithöfundur, skáld og sagnfræðingur, sem nýverið hlaut Riddarrakross hinnar íslensku Fálkaorðu.


Ljóð hennar, „Betra stöff,“ kallast skemmtilega á við ljóð skáldkonunnar Ágústínu Jónsdóttur:

Adam var ekki lengi

í Paradís

en

nógu lengi til að

láta freistast.


Konan, freistingin og syndafallið – þetta hefur lengi verið samofið í ljóðum karla en við tökum undir með Þórunni, „Eitt karlmannsrif er ekki gott stöff í heila konu“.


Hér á eftir verða skoðuð nokkur ljóð sprottin úr hættulegum heilum íslenskra kvenna, ort á ólíkum tímum. Ljóðin gefa okkur innsýn inn í þau málefni sem brunnu á konum áður fyrr og brenna enn á konum í dag. Ort er um hlutskipti kvenna, togstreituna á milli skyldu og sköpunarþrár og um kvennasamstöðu og fórnir sem þarf að færa í hversdagslífinu. En margar hindranir eru á veginum eins og við heyrum af vísum Theodoru Thoroddsen:

Mitt var starfið hér í heim

heita og kalda daga

að skeina krakka og kemba þeim

og keppast við að staga.

Ég þráði að leika lausu við

sem lamb um grænan haga

en þeim eru ekki gefin grið,

sem götin eiga að staga.

Langaði mig að lesa blóm

um langa og bjarta daga,

en þörfin kvað með þrumuróm:

„Þér er nær að staga.“

Heimurinn átti harðan dóm

að hengja á mína snaga,

hvað ég væri kostatóm

og kjörin til að staga.

Komi hel með kutann sinn

og korti mína daga,

ég held það verði hlutur minn

í helvíti að staga.

Theodora talaði af reynslu, eignaðist 13 börn með honum Skúla sínum. Theodora var þó heppin, því hún hafði aðra konu á heimilinu til að hjálpa sér með barnaskarann, vinkona hennar, Guðbjörg Jafetsdóttir, bjó á heimilinu í áratugi og aðstoðaði við heimilisverk og barnauppeldi. Þess má geta að Sigurður Nordal kallaði þessar vísur Theodoru „óþolinmæðisorð“ og taldi fráleitt að hún væri að yrkja um eigin reynslu, vísurnar væru áreiðanlega ortar í orðastað annarra kvenna. Sjálf skrifaði Theodora í grein sem hún birti í Skírni árið 1913: „Því er svo varið með skáldagáfuna sem flest annað andlegt atgervi, að vér konur erum þar að jafnaði eftirbátar karlmannanna. Skal hér ósagt látið, hvort heldur það stafar að því, að heilinn í okkur sé léttari á voginni heldur en þeirra, eins og sumir staðhæfa, eða það á rót sína í margra alda andlegri og líkamlegri kúgun.“


Heimilisverkin eru konum drjúgt yrkisefni en Þórdís Richardsdóttir snýr skemmilega upp á þema, um leið og hún snýr upp á þekkta sögu í ljóði sínu „Ævintýramórall“.

Fyrir handan fjöllin sjö búa dvergarnir sjö bíða þín Mjallhvít með sjö gráðuga munna sjöfaldar kvartanir ný gólf til að skúra Er ekki betra að láta skera úr sér hjartað en grafa sig lifandi bíðandi eftir einhverjum kóngsyni sem hefur líf þitt í hendi sér uppfrá því lifa hamingjusöm uppfrá því í glerkistu sofandi svefni vanans Reyndu heldur reyndu heldur reyndu heldur við veiðimanninn

Örlög Mjallhvítar, Öskubusku, Þyrnirósar og Rauðhettu hafa verið íslenskum kvenskáldum hugleikin, en einnig má snúa út úr íslenskri sagnahefð. Það gerir Vilborg Dagbjartsdóttir gerir í ljóði sínu „Skassið á háskastund“:

Löðrungar og köpuryrði

allt er gleymt

ó kæri

hérna er fléttan

snúðu þér bogastreng

ég skal brýna búrhnífinn

og berjast líka

bæinn minn skulu þeir

aldrei brenna

bölvaðir

Eftir Vilborgu er líka ljóð sem lýsir morgunsöngur útivinnandi húsmóður:

Klukkan fimm:

Hann þar að vera kominn út á flugvöll fyrir sex